Segir bæjarráð úti í kuldanum

Daníel Jakobsson formaður bæjarráðs í Ísafjarðarbæ.

Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir að stærri útboðsverk bæjarins séu hvorki rædd né rýnd af bæjarráði áður en þau fara í útboð. Hann lagði fram bókun þess efnis á síðasta bæjarstjórnarfundi. Tilefni gagnrýni Daníels er útboð á þjónustuhúsi á tjaldsvæðinu á Þingeyri en í bókuninni kemur fram að málið sé ekki nýtt af nálinni, áður hafi verið bent á þetta, meðal annars þegar almenningssamgöngur í Ísafjarðarbæ voru boðnar út.

Daníel er síður en svo andvígur byggingu þjónustuhúss á tjaldsvæðinu og lagði sjálfur til að verkið yrði fært framar í framkvæmdaröðina við gerð fjárhagsáætlunar. En hann lýsir yfir vonbrigðum með að bæjarráð hafi ekki haft neina aðkomu að útboðinu síðan þá.

„Hvorki teikningar, hönnunarforsendur, kostnaðaráætlun eða áætlaður rekstrarkostnaður voru lögð fram í bæjarráði og útboðsgögn ekki kynnt né að til stæði að bjóða umrætt verk út. Niðurstaðan er að búið er að hanna og bjóða út umrætt þjónustuhús sem mun kosta hátt í tvöfalda þá upphæð sem upp var lagt með, þegar hönnunarkostnaður, framkvæmdakostnaður og annað ófyrirséð liggur fyrir,“ segir í bókun Daníels.

Bæjarstjórn ákvað að ganga til samninga við Vestfirska verktaka ehf. á grundvelli 32 milljóna kr. tilboðs í verkið. Verkið verður tvískipt og verður framkvæmt fyrir 20 milljónir kr. á þessu ári í samræmi við fjárhagsáætlun. Það sem stendur út af, eða 12 milljónir samkvæmt tilboði, verður framkvæmt og greitt á næsta ári. Þjónustuhúsið á að vera tilbúið og komið í rekstur fyrir næsta sumar.

smari@bb.is

DEILA