Sauðfjárbændum hjálpað að hætta

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra leggur til að fé verði fækkað um 20% og þeir bændur sem vilji hætta sauðfjárframleiðslu haldi 90% af greiðslum frá ríkinu í fimm ár. Þeir sem hætta á næsta ári fá 70% í þrjú ár. Tillögurnar eru hluti af aðgerðum til að draga úr framleiðslu kindakjöts. Greiðslur til hvers bónda miðist við greiðslumark, innlegg, fjárfjölda og aðrar forsendur fyrir greiðslum, eins og þær voru á viðkomandi búi að meðaltali árin 2016 og 2017 og geta bændur valið hvort þeir fái greitt í einu lagi eða með jöfnum greiðslum út samningstímann.

Þá eiga bændur sem fækka fé um að lágmarki 50 kindur í haust kost á greiðslu 4.000 kr. sláturálags.

Þeir framleiðendur sem gera samninga um að hætta á grundvelli ofangreinds skuldbinda sig til að taka ekki upp sauðfjárframleiðslu að nýju á gildistíma núverandi sauðfjársamnings.  Þeir sem gera samninga um fækkun skuldbinda sig til að auka ekki framleiðslu sína á gildistíma núverandi sauðfjársamnings.  Kvöðin verði bundin við framleiðanda og tengda aðila.

Til að mæta hlut af yfirvofandi kjaraskerðinu eiga þeir bændur sem ætla að halda áfram búskap kost á greiðslum sem miðast við fjölda kinda á vetrarfóðrum haustið 2016. Skilyrði fyrir þessum greiðslum verði m.a. að viðkomandi bóndi búi á lögbýli og hafi fleiri en 150 vetrarfóðraðar kindur. Tekið er fram að þetta verður einskiptisaðgerð.

Samkvæmt gildandi búvörusamningi er 99 milljónum kr varið í svæðisbundinn stuðning á árinu 2017 en sú fjárhæð hækkar í 145 milljónir kr. á næsta ári. Þessar greiðslur koma fyrst og fremst þeim bændum til góða sem eiga erfitt með að sækja atvinnu utan búsins vegna fjarlægðar frá þéttbýli. Til þessa verkefnis verði varið 150 milljónum kr. til viðbótar því fé sem áskilið er í samningnum.

smari@bb.is

DEILA