Ráðherra telur margt styðja lagasetningu um Teigsskóg

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra telur rétt að skoða sérstaka lagasetningu sem heimilar vegagerð í Teigsskógi. Þrír þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa hvatt til lagasetningar og segja hana einu færu leiðina til að þoka málinu áfram.
„Ég skoða það með þeim og mér finnst margt vera sem geti stutt það að þetta sé þannig tilvik að það sé nokkuð einstakt og réttlæti slíka málsmeðferð,“ sagði Jón í fréttum RÚV í gær um lagasetningu sem Gunnar Bragi Sveinsson, Elsa Lára Arnardóttir og Teitur Björn Einarsson hafa hvatt til.

Jón sagði vonbrigði að stjórnsýslan geti tafið vegaframkvæmdir eins lengi og raun er á í Gufudalssveit og fór ekki í grafgötur með ástand veganna á svæðinu. „Ástandið er líklega hvað verst þarna á sunnanverðum Vestfjörðum. Algerlega óboðlegt og það verður ekki við það unað. Aukin atvinnuuppbygging og íbúafjölgun auðvitað krefst þess að samgöngur séu með sómasamlegum hætti.“

DEILA