Óttast að yngri bændur bregði búi

Mikill vandi steðjar að sauðfjárrækt í kjölfar þriðjungslækkun afurðaverðs í haust.

Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda segir tillögur landbúnaðarráðherra um lausn á vanda sauðfjárbænda ekki taka heildstætt á vandanum og óttast að stærri bú og yngri bændur muni einna helst taka tilboðinu og bregða búi.

„Ég geri mér því ekki enn grein fyrir því hvernig bændur ætla að bregðast við. Í tillögunum er mikill hvati fyrir að sauðfjárbændur hætti búskap en minni hvati til að þeir fækki fé sem er á allan hátt samfélagslega betra. Þrátt fyrir að erfitt sé að ráða í stöðuna og spá í framtíðina óttast ég að það verði einna helst yngri bændur og stærri bú sem koma til með að taka tilboðinu og hætti sauðfjárbúskap,“ segir Oddný Steina Valsdóttir, bóndi og formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, í samtali við Bændablaðið.

Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis og fyrrv. formaður Bændasamtakanna, segir í viðtali í sama blaði að í tillögum ráðherra felist eyðibýlastefna. Hann segist þó ekkert vilja útiloka starfslok einhverra bænda, en á þeim grunni þurfi þó að reisa einhvern rekstur á jörðunum til framtíðar. „Í sjálfu sér skiptir samfélögin ekki öllu máli hvort menn búa með sauðfé á jörðunum eða stunda þar annan verðmætaskapandi rekstur. Ég vil ekki meiri eyðibýlastefnu. Það var ekki það sem sveitarstjórnir voru að kalla eftir með ályktunum sínum,“ segir Haraldur.

smari@bb.is

DEILA