Ný umhverfisstefna Ísafjarðarbæjar

Stjórnsýsluhús Ísafjarðarbæjar

Tillaga Umhverfis- og framkvæmdanefndar Ísafjarðarbæjar um umhverfisstefnu Ísafjarðarbæjar var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær, 21. september.

Umhverfisstefna Ísafjarðarbæjar

Ísafjarðarbær stefnir að því að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum. Til að ná sem mestum jákvæðum áhrifum í umhverfismálum hefur Ísafjarðarbær mótað sér umhverfisstefnu.

Markmið:

Markmiðið er að minnka neikvæð umhverfisáhrif af starfsemi stofnana Ísafjarðarbæjar. Stofnanirnar munu leitast við að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag með ákvörðunartöku sinni og þjónustu.

Ísafjarðarbær leggur áherslu á:

  • Að tryggja stöðugar úrbætur í umhverfisstjórnun og mengunarvörnum með því að innleiða og framfylgja verkefnum eins og:
    • Earth Check
    • Bláfáni
    • Grænfáni
    • Græn skref
  • Að setja sér mælanleg markmið í umhverfismálum með að
    • skrá orkunotkun
    • skrá innkaup á vistvænum vörum

svo árangur geti verið samanburðarhæfur og upplýsingum safnað um notkun svo hægt sé að endurskoða með tilliti til sparnaðar.

  • Að velja við innkaup á vörum og þjónustu umhverfisvænar, umhverfismerktar og/eða endurunnar vörur, þar sem því verður við komið. Í útboðum og/eða verðkönnunum skal upplýst fyrirfram um kostnaðarvægi þessara þátta.
  • Að lágmarka notkun spilliefna og hámarka endurvinnslu og endurnýtingu innan stofnana i tengslum við verkefni eins og „græn skref“.
  • Að lágmarka hráefnanotkun og úrgangsmyndun innan stofnana.
  • Að hafa frumkvæði að því að upplýsa starfsfólk, almenning, fyrirtæki og stofnanir um endurvinnslu og endurnýtingu.
  • Að hafa vel þjálfað starfsfólk og stjórnendur á sviði umhverfismála til að auka árangur og öryggi í allri vinnu að umhverfismálum og koma reglulega og markvisst með fréttir um umhverfismál til starfsfólks og stjórnenda.

bryndis@bb.is

DEILA