#náttúranervestfirðingur

Pétur G. Markan.

Undanfarið hefur farið fram umræða um Vestfirðinga og mögulegt meðvitundarleysi þeirra gagnvart stórbrotinni náttúru fjórðungsins. Það stafar kannski af skynvillu frístundaútivistargarpa, sem fyllast andgift þegar markmiðum þeirra hefur verið náð, eina næs helgi í júní. En staðreyndin er sú að Vestfirðingar eru ekki bara varðmenn náttúrunnar, við erum náttúran og hún er Vestfirðingur. Náttúran er mánudagsmorgun í janúar, sólstöður í júní, lognstillt jólanótt og stórhríð um áramót. Hún er hversdagur og heilög í sömu vestfirsku setningunni. Náttúran er morgunskokk á sunnudegi, þegar lognið ruggar fjarðarfólkinu ofurvært, á meðan það sefur aðeins „út“ – eftir ballið í gær.

Nú er lag að Vestfirðingar sendi út á Instagram og Facebook hversdagsmyndir þar sem líf, samfélag og náttúra eru samofin og samstíga í fortíð, nútíð og framtíð. Ég sá að Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, setti fram sömu hugmynd í gær. Tökum saman höndum og birtum þessar myndir og sýnum veröldinni hvernig náttúran er partur af okkur.

Notum hashtaggið: #náttúranervestfirðingur og #vestfirðingareruþessvirði

Pétur Markan

DEILA