Lýðheilsuganga í surtrarbrandsnámuna

Séð út Syðridal.

Á morgun verður gengið upp að surtarbrandsnámunni í Syðridal í Bolungarvík og er gangan liður í lýðheilsugöngum Ferðafélags Íslands. Samhliða göngunni verður leiðin upp að námu stikuð. Gengið verður frá Gilsárbrú í Syðridal kl. 18 og er göngufólki bent á að hafa með sér höfuð- eða vasaljós hafi það áhuga á að fara inn í námun.

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands verða á öllu landinu nú í september og eru einn af hápunktunum í glæsilegri afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Þetta eru fjölskylduvænar göngur sem taka  u.þ.b. 60-90 mínútur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði. Allir göngugarpar sem taka þátt í Lýðheilsugöngum FÍ geta hreppt glæsilega vinninga með því að skrá sig í göngurnar.

smari@bb.is

DEILA