Komdu út að ganga!

Frá göngu Ferðafélags Ísfirðinga í Grunnavík í sumar

Á þessu ári fagnar Ferðafélag Íslands (FÍ) 90 ára afmæli og býður félagið upp á ýmsa viðburði í tilefni af þessum tímamótum. Nú í septembermánuði verða á dagskrá svokallaðar Lýðheilsugöngur sem munu fara fram alla miðvikudaga. Tilgangurinn með verkefninu er að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu og lífsgæði. Verkefnið er unnið í samstarfi við VÍS og eru faglegir samstarfsaðilar Velferðarráðuneytið og Landlæknisembættið og taka deildir FÍ um allt land þátt. Bæklingi um verkefnið hefur þegar verið dreift inná öll heimili á landinu.

Göngurnar ættu að henta flestum og hefur hver þeirra sérstakt þema: náttúra, vellíðan, saga og vinátta. Hefjast allar göngurnar kl. 18:00 og taka u.þ.b. 60-90 mín.

Allir sem taka þátt í Lýðheilsugöngum geta skráð sig í göngur á vef verkefnisins keppa um leið um veglega vinninga. Skráning fer fram hér: http://lydheilsa.fi.is/

Hjá Ferðafélagi Ísfirðinga verður dagskráin á þessa leið:

6.september – Vellíðan
Mæting við Brúarnesti. Gengið inn í Tungudal þar sem boðið verður upp á jóga. Jógamottur verða á staðnum, en fólk er beðið um að mæta í viðeigandi fatnaði. Að lokum gengið tilbaka að Brúarnesti. Fararstjóri og jógakennari: Gunnhildur Gestsdóttir.

13.september – Náttúra
Mæting við gönguskíðaskálann á Seljalandsdal. Gengið þaðan og tilbaka og notið nátturufegurðar í fögrum fjallasal. Fararstjóri: Kristín Ósk Jónasdóttir.

20.september – Vinátta
Mæting við félagsheimilið í Hnífsdal og gengið um dalinn. Upplagt að bjóða vinum og samstarfsfélögum með, reyna að virkja sem flesta og eignast þannig nýja gönguvini. Fararstjóri: Rúnar Eyjólfsson.

27.september – Saga
Mæting við Safnahúsið við Eyrartún. Söguganga um Eyrina. Fararstjórar: Jóna Símonía Bjarnadóttir og Andrea S. Harðardóttir.

bryndis@bb.is

DEILA