Höfða ekki dómsmál

Óðinn Sigþórsson.

Nefndarmenn í starfshópi um stefnumótun í fiskeldi ætla ekki að höfða mál eða elta ólar við afstöðu Ísafjarðarbæjar vegna kröfu þeirra um afsökunarbeiðini frá bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar á ummælum Gísla Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra. Þrír nefndarmenn fóru fram á afsökunarbeiðnina, þeir Kjartan Ólafsson stjórnarformaður Arnarlax, Guðmundur Gíslason stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða og Óðinn Sigþórsson fulltrúi Landssambands veiðifélaga í starfshópnum. Bæjarráð hefur hafnað kröfu þeirra og áréttaði að bæjarstjóri beri sjálfur ábyrgð á orðum sem hann lætur falla á bæjarstjórnarfundi.

„Þau virðast ekki átta sig á að bærinn birtir þetta á Facebooksíðu sinni og dreifir þannig þessum ósannindum bæjarstjóra. Okkur fannst það vera aðalatriðið, að bærinn skuli vera að dreifa þessum ummælum,“ segir Óðinn Sigþórsson.

Óðinn segir að þeir ætli ekki að höfða mál á hendur bæjarstjóra, en í bréfi þeirra til bæjarráðs kom fram að þeir áskilji sér allan rétt til þess ef ekki yrði lögð fram opinber afsökunarbeiðni.

„Við sjáum ekki ástæðu til þess að eltast við svona mál og það nær ekki því máli að það taki því að gera það að dómsmáli. Okkar markmið var að leiðrétta ósannindi bæjarstjóra og við erum búnir að því. Svo verður bæjarstjórn og bæjarstjóri að gera upp við sig hvort að það eigi að fara eftir siðareglum kjörinna fulltrúa í Ísafjarðarbæ,“ segir Óðinn.

smari@bb.is

DEILA