Hagvöxtur 4,3% á fyrri hluta ársins

Lands­fram­leiðslan á 2. árs­fjórðungi 2017 jókst að raun­gildi um 3,4% frá sama árs­fjórðungi fyrra árs. Á sama tíma juk­ust þjóðarút­gjöld, sem eru sam­tala neyslu og fjár­fest­ing­ar, um 6,7%. Einka­neysla jókst um 9,5%, sam­neysla um 2,8% og fjár­fest­ing um 5,8%. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar.

Út­flutn­ing­ur jókst um 8,0% á sama tíma og inn­flutn­ing­ur jókst um 16,2%. Helstu drif­kraft­ar hag­vaxt­ar er einka­neysla ásamt fjár­muna­mynd­un og sam­neyslu. Árstíðaleiðrétt lands­fram­leiðsla dróst sam­an að raun­gildi um 1,1% frá 1. árs­fjórðungi 2017.

Lands­fram­leiðslan á fyrstu sex mánuðum árs­ins 2017 jókst um 4,3% að raun­gildi borið sam­an við fyrstu sex mánuði árs­ins 2016. Á sama tíma juk­ust þjóðarút­gjöld um 5,2%. Einka­neysla jókst um 8,3%, sam­neysla um 2,2% og fjár­fest­ing um 5,2%. Út­flutn­ing­ur jókst um 5,2% og inn­flutn­ing­ur um 10%.

 

 

DEILA