Gunnar Bragi hættur í Framsókn

Gunnar Bragi Sveinsson.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi ráðherra flokksins, greinir frá því á Facebook-síðu sinni að hann hafi ákveðið að yfirgefa flokkinn. „Ég kveð flokkinn minn með mikilli sorg en sáttur við framlag mitt til hans. Ég mun sakna alls þess frábæra fólks sem þar er en margir þeirra hafa verið mér samferða þennan tíma,“ skrifar Gunnar Bragi á Facebook. Gunnar Bragi hefur verið oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi síðan 2009.

Gunnar Bragi  grein­ir frá því, að nú sé svo komið „að hrein­lyndið er á und­an­haldi í flokkn­um mín­um. Ein­hver ann­ar­leg öfl virðast hafa tekið for­ystu í flokkn­um, öfl sem ég hef lík­lega ekki verið nógu und­ir­gef­inn. Kaf­báta­hernaður er stundaður.“

Hann sóttist eftir oddvitasætinu í Norðvesturkjördæmi fyrir kosningarnar í lok október, en fékk óvænt mótframboð frá Ásmundi Einari Daðasyni, fyrrverandi þingmanni flokksins.

Gunnar Bragi skrifar:

„Framsóknarfélagið mitt er klofið og ég sé að fólki er skipt í fylkingar. Gamla góða vinalega kveðjan er í sumum tilfellum orðin í besta falli kurteisisleg. Þetta á ekki að vera svona, þetta þarf ekki að vera svona. Öllu þessu mátti forða hefðu menn hlustað eða komið hreint fram. Því miður er það nú að rætast sem ég og fleiri vöruðum við og ég sagði við marga vini mína síðla sumars 2016 í upphafi innanflokksátakanna.

Þegar svona er komið þá veltir maður framtíðinni fyrir sér. Vil ég vinna í þessu umhverfi? Get ég unnið með fólki sem starfar með þessum hætti eða lætur það viðgangast? Ég hef undanfarið hitt eða hringt í fjöldann allan af frábæru fólki sem ýmist hvetur mig til að taka slaginn, „ekki láta þá komast upp með þetta“, eða þá að það hvetur mig til að draga mig í hlé vegna ástandsins í flokknum.“

smari@bb.is

DEILA