Gagnrýnir ráðamenn á Vestfjörðum

Tómas við foss í Eyvindafjarðará á Ströndum.

Tómas Guðbjartsson skurðlæknir hefur verið fremstu í flokki í andstöðunni við Hvalárvirkjun á Ströndum. Í Fréttablaðinu í dag birtist grein eftir Tómas þar sem hann gagnrýnir málflutning ráðamanna á Vestfjörðum sem og starfsmanna HS Orku. Tómas hefur í félagi við Ólaf Má Björnsson augnlækni staðið fyrir átakinu #fossadagatal á Ströndum þar sem þeir birta eina mynd á dag af fossum sem Hvalárvirkjun mun hafa neikvæð áhrif á.

„Það er ekkert launungarmál að við vildum ná athygli með fossadagatalinu – átaki sem við kostum að öllu leyti sjálfir. Það gleður okkur hversu margir hafa sýnt því áhuga. En því miður fylgir oft böggull skammrifi – því að umræðan um fossadagatalið, og þá sérstaklega á Vestfjörðum, hefur algjörlega snúist á hvolf og fókusinn frekar snúist um mig, starf mitt og persónu heldur en málefnið,“ skrifar Tómas og vitnar til ummæla á samfélagsmiðlum þar sem hann er sagður „lattelepjandi íbúi í 101 Reykjavík“ og „óvinur Vestfjarða“ sem ætti ekki að skipta sér af framtíð landshluta sem honum komi ekki við.

„Öllu langsóttara er þó að færni mín sem skurðlæknis eða skortur á henni sé tengd þessari umræðu eða sett spurningarmerki við kynhneigð mína eins og hún komi þessu máli við. Fyrrverandi alþingismenn og ritstjórar segja okkur Ólaf með „upplásið egó“ og forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar hrindir af stað herferð þar sem ég er sakaður um að vera „mikilvægari en aðrir“, „tali niður Vestfirði og Vestfirðinga“, og segi þá „umhverfissóða,“ skrifar Tómas og segist ekki kannast við þessi ummæli sem honum eru eignuð. Hann stendur hinsvegar við fyrri ummæli sín, sem hann hefur margoft ítrekað, að hann telur að sumir Vestfirðingar hafi látið glepjast af fagurgala HS-Orku um ávinning og arðbærni Hvalárvirkjunar.

Hann kveinkar sér ekki undan umræðunni, enda oftsinnis tekist á um erfið málefni í fjölmiðlum, t.d. um Landspítala og fjármögnun íslenska heilbrigðiskerfisins.

„En ég er ekki tilbúinn til að kyngja því að umræðan á Íslandi sé komin á þetta lágt plan – enda verður það til þess að landsmenn veigra sér við að tjá sig um mikilvæg álitaefni. Ég tel mig í fullum rétti að hafa skoðun á því hvernig farið er með landið okkar, sérstaklega þegar ósnortin náttúra á í hlut. Sem skurðlæknir á suðvesturhorninu sinni ég vandamálum Vestfirðinga, líkt og annarra landsmanna, og vil minna á að ég hef oftsinnis áður staðið í mótmælum gegn náttúrurspjöllum í öðrum landshlutum en Vestfjörðum, t.d. í Landmannalagum og á miðhálendinu.“

DEILA