Fyrstu tónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar á starfsárinu 2017-2018 verða í Hömrum laugardaginn 9.september kl. 16:30, en þar kemur fram ungur píanóleikari og tónskáld, Tanja Hotz. Tanja kemur frá Sviss en á uppruna sinn að rekja til Vestfjarða, dóttir tónlistarkonunnar Salbjargar Sveinsdóttur frá Hnífsdal. Tónleikar hennar verða kynntir betur í næstu viku.
Viku eftir tónleika Tönju Hotz, laugardaginn 16. september, verða fyrstu áskriftartónleikar félagsins í Hömrum. Þá heimsækir okkur skemmtihljómsveitin Mandólín, sem er skipuð sjö hljóðfæraleikurum á fjölbreytt hljóðfæri. Þetta eru Alexandra Kjeld, Ástvaldur Traustason, Bjarni Bragi Kjartansson, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Guðrún Árnadóttir, Martin Kollmar, Óskar Sturluson og Sigríður Ásta Árnadóttir. Mandólín leikur þjóðlög, tangóa, leikhústónlist og annað sem fær hjörtun til að slá örar.
bryndis@bb.is