Ekki fyrirséð hvert orkan fer

Ós Hvalár í Ófeigsfirði.

 Ekkert er til í sögusögnum um að orka úr fyrirhugaðri Hvalárvirkjun fari til stóriðjunnar á suðvesturhorninu. Þetta segir Gunnar G. Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks ehf. Í grein sem birtist á bb.is í dag segir Gunnar að VesturVerk hafi ekki gert neina orkusölusamninga og hann tekur fram að HS Orka, sem er stærsti eigandi VesturVerks, hafi ekki gert neina samninga um sölu á orku úr Hvalárvirkjun.

Ekki er fyrirséð hvert raforka frá Hvalárvirkjun verður seld, skrifar Gunnar , en segir þó ljóst að virkjunin auki umtalsvert möguleika á að byggja upp atvinnustarfsemi á Vestfjörðum. „Á dæmigerðum sumardegi eru flutt inn frá megin flutningskerfi landsins 15-20MW og á köldum vetrardegi geta þetta orðið allt að 40MW. Í dag eru flutt inn allt að 160GWh/ári til Vestfjarða frá megin flutningskerfi landsins og er það sem svarar til helmings af framleiðslugetu Hvalárvirkjunar.  Það má gera ráð fyrir að með áformum í laxeldi og uppbyggingu atvinnuvega tengdu laxeldi auk núverandi innflutning á orku fari öll orka Hvalárvirkjunar til Vestfjarða,“ segir í greininni.

Gunnar rekur það sem allir Vestfirðingar þekkja allt of vel, lítið raforkuöryggi. Vestfirðir eru í dag tengdir með einni línu frá Hrútatungu að Mjólkárvirkjun um 162 km leið en Mjólkárvirkjun annar aðeins um 35-40% af raforkuþörf Vestfirðinga.  Þessi langa tenging kemur niður á raforkuöryggi Vestfirðinga þar sem bilanir á henni eru tíðar á vetrum.

Hvalárvirkjun verður tengd með jarðstreng yfir Ófeigsfjarðarheiði að nýjum afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi. Frá nýjum afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi verður lögð lína eða strengur að Mjólkárlínu 1 í Kollafirði sem telst til meginflutningskerfisins í dag. Tengingin í Kollafirði er 40 km frá Mjólkárvirkjun. Gunnar segir að línan eða strengurinn muni liggja frá tengivirki í Ísafjarðardjúpi með ríkjandi vindátt að vetri til og verði því fyrir mun minni veðurfarslegum áhrifum í rekstri en línan úr Hrútatungu í Kollafjörð.

„Með virkjuninni mun framboð á hreinni endurnýjanlegri orku aukast en í dag er olíunotkun á Vestfjörðum mikil vegna ónógrar framleiðslu og flutningsgetu raforku á Vestfjörðum. Olía er notuð til raforkuframleiðslu og hitunar fjarvarmaveitna, þegar raforkuafhending bregst. Þegar allt díselafl til raforkuframleiðslu er í gangi á Vestfjörðum eru brenndar um 600 tunnur af díselolíu eða rúm 120 tonn á sólarhring, með tilheyrandi ónauðsynlegri mengun.  Árið 2015 voru brennd á fimmta hundrað tonn af olíu bara til hitunnar íbúðarhúsnæðis á Vestfjörðum.“

Gunnar vekur athygli á því að boðuð skattahækkun á olíu sé hækkun skatta á Vestfirðinga.

„Hækkunin þýðir kostnaðarauka vegna keyrslu varaafls og katla til hiturnar íbúðarhúsnæðis um tæpar 4 milljónir á sólarhring við fulla notkun. Olíuhækkunin er ekkert annað en búsetuskattur tilkomin vegna skorts á innviðum. Þann reikning munt þú greiða Vestfirðingur góður sem orkunotandi, á sama tíma og það er verið að vinna á móti nýtingu náttúruauðlinda Vestfjarða.“

 

 

DEILA