Forstjóri Hafrannsóknastofnunar telur síður en svo útilokað að hægt verði að hefja laxeldi í Ísafjarðardjúpi með því að eldisfyrirtækin fari í tilteknar mótvægisaðgerðir „Ég held að þær leiðir finnist innan ekkert mjög langs tíma,“ segir Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafró, en bendir jafnframt á að í sjókvíaeldi er sígandi lukka best og að umhverfisskilyrði í Ísafjarðardjúpi séu ekki þau bestu í heimi fyrir sjókvíaeldi. Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar er lagt til að ekkert laxeldi verði í Djúpinu. Stofnunin hefur verið gagnrýnd fyrir að taka ekki tillit til mótvægisaðgerða við gerð matsins. Sigurður segir að við gerð matsins hafi verið horft til sjókvíaeldis og þeirra aðferða sem eru stundaðar í dag. „Við bendum á nokkrar leiðir til að draga úr hættu á erfðablöndun en við getum í raun ekki metið þær fyrr en þær eru komnar nær framkvæmdastigi, þess vegna var matið gert út frá því sem er í praxís í dag,“ segir Sigurður.
Hann segir að eldisfyrirtækin séu að skoða sín mál og breyttar aðferðir við eldið og sérfræðingar stofnunarinnar hafa átt nokkra fundi með fyrirtækjunum.
Sigurður telur að innan ekki margra ára verði komnar aðferðir til að ala ófrjóan lax og segir mikla grósku í rannsóknum og tilraunum í þá veru og Hafrannsóknastofnun hefur vilja til að vera aðili að þeim rannsóknum.
Stuðningsmenn fiskeldis í Djúpinu hafa gert lítið í vægi ánna í Ísafjarðardjúpi og þær sagðar manngerðar. Sigurður segir það hafið yfir vafa að í ánum eru sérstakir stofnar og að nokkuð sé til af rannsóknum bæði um Langadalsá og Laugardalsá. „Það er alveg rétt að Laugardalsá var opnuð fyrir fiski um miðja síðustu öld og rannsóknir benda til að stofnarnir í Langadal og Laugardal eru mjög skyldir og væntanlega hefur lax á svæðinu numið land í Laugardal þegar áin var gerð fiskgeng. Það að menn hafi opnað fiskivegi gerir stofninn ekki ómerkilegri, einn þriðji af laxi á Íslandi er búinn þannig til.“
Sigurður bendir á að í stað þess að gera lítið úr þeim villtu laxastofnum sem lifa í ánum í Ísafjarðardjúpi, ætti frekar að einbeita sér að því að finna aðferðir til að vernda þá og draga úr áhættu sem þeim stafar af sjókvíaeldi.
Þær aðferðir sem helst er horft til er útsetning á stærri seiðum og þá seint um sumar eða að hausti. Dregur það úr hættu af snemmstroki. Þá er einnig verið að skoða auknar kynbætur þar sem augun beinast að því að henda smálaxageni úr eldisstofninum. Með því móti yrði lægra hlutfall eldislax kynþroska og dregur það úr áhættu á erfðablöndun úr síðstroki. Sigurður segir að þessar aðferðir komi öllum til góða, jafnt náttúrunni og eldisfyrirtækjunum.
Hann bendir jafnframt á að nægur tími sé til stefnu til að þróa og prófa nýjar aðferðir. Samkvæmt áhættumati Hafró er talið óhætt að ala 70 þúsund tonn á Íslandi. „Það mun taka minnst áratug að ná því. Við eigum ekki til seiðastöðvar til að búa til næg seiði. Við vitum líka að Ísland er jaðarsvæði fyrir fiskeldi þannig að það er sennilegra æskilegra og öruggara að þetta vaxi hægar,“ segir Sigurður.
Á það hefur verið bent, m.a. af formanni Framsóknarflokksins, að þar sem áhættumatið er afar mikilvægt plagg, bæði fyrir villta laxastofna og efnahagslíf í dreifðum byggðum, þurfi það ritrýningu sérfræðinga á alþjóðavísu. Að sögn Sigurðar eru höfundar áhættumatsins að undirbúa vísindagrein sem fer í ritrýningu í erlendu vísindariti í haust. „Við gerð matsins vorum við með tvo framúrskarandi erlenda sérfræðinga með okkur en við gerðum þeim ekki að vera höfundar skýrslu á íslensku. Þeir eru að skrifa með okkur þessa grein. Síðan höfum við viðrað plaggið við kollega, aðallega erlenda, og öll gagnrýni hefur verið jákvæð,“ segir Sigurður og leggur áherslu á að plaggið er lifandi og margt getur breyst í fyllingu tímans, bæði til lækkunar á heildarframleiðslu og hækkunar.
smari@bb.is