Breytingar hjá Kalkþörungafélaginu

Verksmiðja Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal.

Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal, hefur verið ráðinn til starfa hjá móðurfélaginu Marigot á Írlandi, eiganda fyrirtækisins á Bíldudal, þar sem honum hefur verið falið að leiða vinnu Marigot hér á landi við tvö þróunarverkefni sem fela í sér byggingu og rekstur tveggja verksmiðja, annars vegar í Stykkishólmi og Súðavík hins vegar. Áhersla er lögð á að starfsemi þeirra hefjist eigi síðar en á næstu fimm árum.

Sem nýfjárfestingastjóri Marigot á Íslandi eins og starfsheitið hefur verið skilgreint verður aðalstarf Einars Sveins til að byrja með verkefnið framundan í Stykkishólmi og mun Einar Sveinn því flytjast þangað búferlum á næstu mánuðum. Bæði verkefnin, í Stykkishólmi og Súðavík, lúta m.a. að leyfisveitingum, samningum við sveitarfélög og aðra aðila er koma að þróun verkefnanna, svo raforkusala, verktaka og aðra.

Vegna skipulagsbreytinganna sem gert er ráð fyrir að gangi endanlega í gegn á næstu sex mánuðum hafa verið ráðnir tveir nýir stjórnendur frá Bergen í Noregi til Kalkþörungafélagsins á Bíldudal sem taka við störfum Einars Sveins.

Stig Randal hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri verksmiðjunnar. Randal lauk BA-prófi í sögu frá háskólanum í Bergen árið 1988. Hann er einnig menntaður rafmagnsfræðum og hefur áralanga reynslu af ýmsum stjórnunarstörfum, samningum við birgja og mismunandi þróunar- og innleiðingarverkefnum, m.a. í gas- og olíuiðnaði. Randal hefur einnig langa reynslu af útgáfu flokkunarskírteina, svo sem hjá Lloyds, DNV, ABS og nú nýlega hjá Norsok. Hann hefur störf í þessari viku.

Øystein Mathisen hefur verið ráðinn viðhaldsstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins. Mathiesen tæplega þriggja áratuga langa starfsreynslu í véltækni, einkum sem vélvirki og tæknistjóri og á að bai fimm ára nám í þessum greinum. Mathisen hefur starfað sem viðshalds- og tæknistjóri hjá ýmsum fyrirtækjum í Noregi, svo sem Telmek, Lofotenprodukter, Tine Meieriet Vest, Hansa Borg og fleiri fyrirtækjum. Øystein hefur störf á næstunni.

Einar Sveinn Ólafsson.

Til að byrja með mun Einar Sveinn starfa með nýju starfsmönnunum til að kynna þeim starfsemi verksmiðjunnar til hlítar ásamt því sem þeir verða kynntir fyrir helstu hagsmunaaðilum á svæðinu, svo sem sveitarstjórn Vesturbyggðar og stjórnendum helstu fyrirtækja í sveitarfélaginu. Verið er að vinna að því að finna endanlegt húsnæði fyrir þá báða á Bíldudal.

 

smari@bb.is

DEILA