Borgarafundurinn tækifæri til samtals við ráðamenn

Pétur G. Markan.

Sveitarfélögin á Vestfjörðum í samstarfi við Verkalýðsfélag Vestfirðinga og Fjórðungssamband Vestfirðinga standa fyrir borgarafundi í íþróttahúsinu á Ísafirði á sunnuduaginn. Til umræðu verða mál sem hafa verið brennidepli á Vestfjörðum síðustu ár og misseri; raforkumál, laxeldi og samgöngumál. Fundurinn var fastsettur fyrir nokkrum vikum og þá hugsaður til að mynda þrýsing á stjórnvöld en í millitíðinni hefur ríkisstórnin fallið og búið að boða til þingkosninga. „Það voru hugmyndir um að fresta fundinum í ljósi þessara vendinga í landsmálunum en niðurstaðan var að halda fundinn því á honum gefst gott tækifæri til að ræða þessi mikilvægu mál við ráðamenn,“ segir Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambandsins.

Þrír ráðherrar hafa boðað komu sína; Jón Gunnarsson samgönguráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðmála, iðnaðar og nýsköpunar. Fundarstjóri verður Heimir Már Pétursson fréttamaður.

Pétur segir að fleiri raddir en raddir stjórnmálamanna fái að heyrast á fundinum. „Til dæmis verður rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl með framsögu. Þessi mál sem við ætlum að ræða eru kannski ekki pólitísk í eðli sínu og því síður flokkspólitísk. Ef við tökum til dæmis vegaframkvæmdi í Gufudalssveit, Teigsskóg, þá er það mál búið að vera í pattstöðu í áraraðir og varla nokkur maður skilur hvað hefur gerst þarna og hinn almenni Vestfirðingur er orðinn mjög þreyttir á þeim slag,“ segir Pétur sem vill sjá fundinn sem hópefli Vestfirðinga og tækifæri til uppbyggilegs samtals við ráðamenn þjóðarinnar.

„Aðalatriðið á næstu vikum og misserum er að Vestfirðingar þétti raðirnar, en þar með er ekki sagt að við þurfum að vera eintóna, en við verðum að ná að harmónera,“ segir Pétur.

smari@bb.is

DEILA