Boðar lagafrumvarp um Teigsskóg

Gunnar Bragi Sveinsson.

Veglagning um Teigsskóg hefur þvælst í stjórnkerfinu allt of lengi að mati Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. „Í ljósi nýjustu frétta um mögulegar seinkanir er aðeins eitt í boði, að Alþingi samþykki lög um Teigskóg svo framkvæmdir geti hafist. Annað er ekki boðlegt. Mun ég flytja slíkt mál geri aðrir það ekki,“ skrifar Gunnar Bragi í aðsendri grein sem birtist á bb.is í morgun. Greinin fjallar um þrjú mál sem brenna heitt á Vestfirðingum þessi misserin, Teigsskóg, laxeldi og raforkumál. Gunnar Bragi segir að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með niðurstöður starfshóps um stefnumótun í fiskeldi, en Gunnar Bragi skipaði starfshópinn á sinni tíð í sjávarútvegsráðuneytinu. Starfshópurinn leggur til að farið verði eftir áhættumati Hafrannsóknastofnunar þar sem mælst er til að loka Ísafjarðardjúpi fyrir laxeldi. Gunnar Bragi bendir á að Hafró hafi þróað aflaráðgjöfina á löngum tíma og á hverju ári er aflaráðgjöfin rýnd af Alþjóða hafrannsóknaráðinu áður en ráðgjöfin fer til ráðherra.

„Í tilfelli áhættumats á fiskeldi fer vísindalega rýnin fer fram eftir að búið er að loka Djúpinu. Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar er nýtt og frumraun stofnunarinnar á þessum vettvangi. Ljóst er að of margar spurningar eru uppi um aðferðarfræði, gögn og annað er liggur til grundvallar matinu að hægt sé að nýta það til ákvarðanatöku á þessu stigi,“ skrifar Gunnar Bragi í greininni.

Hann gagnrýnir einnig að ekki hafi verið tekið tillit mótvægisáðgerða í Ísafjarðardjúpi við gerð áhættumatsins. „Bæði einstaka framkvæmdaraðili og Hafró hafa komið fram með mótvægisaðgerðir sem þýða að hægt sé að fara af stað strax í Djúpinu undir eftirliti þannig að hvorki lífræn mengun né erfðablöndun ógni nokkrum stofnum í Djúpinu.“

DEILA