Björgunarbátar verða að losna ef skipum hvolfir

Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakað atburðarrásina þegar Brekkunes ÍS 110 hvolfdi í maí 2016 með þeim afleiðingum að skipstjórinn Eðvarð Örn Kristinsson fórst.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að gúmmíbjörgunarbátur hafi ekki losnað frá bátnum eftir að honum hvolfdi né þegar hann var dreginn í land.

Nefndin telur líklegast að báturinn hafi fengið á sig straumhnút og sjó sem leiddi til þess að honum hvolfdi. Nefndin telur að aðstæður hafi verið vanmetnar bæði hvað varðar sjólag og sigldan hraða.

Nefndin telur óásættanlegt að gúmmíbjörgunarbátar losni ekki frá skipum ef þeim hvolfir. Í ljósi fleiri atvika af þessu tagi ítrekar nefndin tillögu í öryggisátt í máli nr. 07215 sem send var Samgöngustofu 20. febrúar 2017 sem er eftirfarandi:

„Að þegar verði hafin endurskoðun á reglum um losunar- og sjósetningarbúnað um borð í íslenskum skipum og heildarúttekt á þeim búnaði sem er í notkun í dag. Þar verði skoðað sérstaklega hvort núverandi búnaður sé að skila björgunarförum á þann hátt sem til er ætlast. Nefndin telur nauðsynlegt að búnaðurinn sé þannig gerður að gúmmíbjörgunarbátar losni frá skipum ef þeim hvolfir óháð stærð þeirra.“

Bryndis@bb.is

DEILA