Bændur segja tillögurnar skref í rétta átt

Bændasamtökin og Landssamband sauðfjárbænda segja margt gott í tillögum landbúnaðarráðherra vegna bráðavanda sauðfjárbænda sem standa frammi fyrir þriðjungslækkun afurðaverðs. Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að hins vegar vanti þær aðgerðir sem taka á fyrirsjáanlegum birgðavanda eftir sláturtíðina, sem nú er hafin. Samtökin telja því að tillögurnar leysi ekki vandann að fullu þó þær séu í rétta átt.

Að mati samtakanna er lykilatriði í þeim lausnum að virkja tímabundnar aðgerðir til sveiflujöfnunar, svo sem að gera afurðastöðvum kleift að taka sameiginlega ábyrgð á útflutningi kindakjöts. „Þær hugmyndir hafa ekki fengið brautargengi og staðan því óbreytt. Hættan er sú að þær aðgerðir sem landbúnaðarráðherra nú leggur til séu ekki nægar og verði aðeins til þess að draga ástandið á langinn,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

smari@bb.is

DEILA