Aka um á göngustígum

Guðrún Anna Finnbogadóttir íbúi á Patreksfirði flutti ræðu á íbúafundinum sem haldinn var í gær á Torfnesi. Guðrún segir vera vor fyrir vestan, atvinnulífið að vakna úr dvala, húsin fyllast af fólki og lífi, ný fyrirtæki spretti upp og þau gömlu braggast og standa sterk eins og gömul tré. En áhrif fiskeldis á suðurfjörðum Vestfjarða í kjölfar uppbyggingar fiskeldis dylst engum. Guðrún minntist annars íbúafundar sem haldinn var vorið 2007 með yfirskriftinni „Lifi Vestfirðir“, þá var upp hávært ákall um atvinnutækifæri, samgöngur, menningarlíf og réttlátari leikreglur í viðskiptalífinu.

Guðrún gerði einnig að umtalsefni þá stöðu sem uppi er í vegamálum á suðurfjörðum, hún kallar vegina göngustíga en aðrir hafa sagt þjóðvegina á þessu svæði engu betri en hestatroðninga.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá Guðrúnu flytja sína ræðu og hér að neðan hefur hún góðfúsleg leyft bb.is að birta ræðuna í heild sinni.

LIFI VESTFIRÐIR – Ræða Guðrúnar

Að búa í sveitarfélagi þar sem atvinnulífið er að vakna úr dvala er eins og að búa í vorinu. Hvert húsið á fætur öðru springur út fullt af fólki sem vill fegra þau og  bæta. Ný fyrirtæki spretta upp og gömlu fyrirtækin standa sterk eins og gamalt tré og eflast við kraft samfélagsins. Vestfirðingar sem lengi hafa þráð að búa heima í firðinum sínum koma aftur, því alla þyrstir í vorið og hvar er betra að njóta þess en í faðmi fjölskyldu, vina og fjallanna.

Það er dapurlegt til þess að hugsa að síðustu áratugi hefur fólkið á fjörðunum fögru mátt horfa á eftir vinum sínum og fjölskyldum flytjast á brott vegna skorts á atvinnutækifærum.

Mig langar að vitna í frétt í Morgunblaðinu frá því vorið 2007. „ÞVERPÓLITÍSKUR hópur almennra borgara á Ísafirði hefur boðað til baráttu- og hvatningarfundar á sunnudag undir yfirskriftinni „lifi Vestfirðir“. Tilefni fundarins eru þær blikur sem nú eru á lofti í atvinnumálum svæðisins.“  Þar flutti ég ræðu um „hagkvæmni smæðarinnar“ og stöðuna sem upp var komin.

Þar var uppi hávært ákall um atvinnutækifæri, samgöngur, menningarlíf og réttlátari leikreglur í viðskiptalífinu.  Í hruninu, ári síðar, kom svo í ljós að rekstur flestra fyrirtækja á Vestfjörðum var ekki eini vandinn, hinsvegar hafði verið vitlaust gefið þegar kom að aðgengi að lánsfé, tækifærum og fleiri þáttum þjónustu í landinu. Enda var lítið fyrir og eftir krepputal í fjórðungnum, allt var þá þegar í kyrrstöðu.

Staðan var reyndar þannig að fljótlega eftir þennan fund flutti ég ásamt fjölskyldunni til Danmerkur frá Ísafirði þegar útibú Marel var lagt niður og bjuggum við þar í sex ár.

Fyrsti valkostur þegar ákveðið var að flytja heim aftur voru auðvitað Vestfirðirnir en atvinnumálum var þannig háttað að við fluttumst á Patreksfjörð þar sem við höfum unað hag okkar vel. Okkur óraði ekki fyrir að samgöngulega séð fluttum við á eyju og einu öruggu samgöngurnar yfir vetrartímann var ferja og flug einu sinni á dag, sex daga vikunnar, til og frá meginlandinu, en engar samgöngur á laugardögum.

Þegar við vorum nýflutt fór ég einn daginn með son minn þá 10. ára í bíltúr og þar sem við ókum út á Vestfirskan holóttan þjóðveginn kemur hönd milli sætanna og hann segir mjög ávítandi „ Mamma, nú stoppar þú, þetta er göngustígur“.

Enn hossumst við á þessum „göngustígum“ síðan á sjöttaáratgunum og ekkert vald í þessu landi virðist geta breytt því.  Þarna keyra flutningabílar með tengivagna daglega, því atvinnulífið á sunnanverðum Vestfjörðum hefur verið að blómgast, hinsvegar hefur enginn tölu á því hversu oft trukkar hafa farið útaf á síðustu árum enda er það ekki einu sinni frétt Þó enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi í fleiri klukkustundir á Vestfjörðum. Það er dýrt að missa bíla fulla af verðmætum útaf veginum og hvimleitt að sitja fastur með fjölskylduna á fjöllum, símasambandslaus, svo ekki sé talað um áhættuna sem af þessu hlýst.

Það er hluti af samfélagslegri ábyrgð að allir landsmenn fái vegi sem eru boðlegir árið um kring og auðvitað net og símasamband sem gerir okkur kleyft að nýta heldstu auðlindina sem við eigum hugvit Vestfirðinga.

Opinber þjónusta hefur verið dregin saman á Vestfjörðum því íbúunum hefur fækkað og er óhætt að segja að heilbrigð skynsemi hafi ekki alltaf ráðið þar för. Ber þar hæst þegar heilbrigðisstofnanir Ísafjarðar og Patreksfjarðar voru sameinaðar í óþökk beggja stofnana. Á þeirri sameiningu er aðeins einn örlítill hængur að ekki er hægt að ferðast þar á milli í 5-8 mánuði á ári eftir árferði. Ferðalagið er mjög spennandi bæði fyrir íbúana og starfsmenn heilbrigðisstofnunarinnar yfir vetrartímann sem vita aldrei á hverju er von. Samlegðaráhrifin af þessari sameiningu eru engin eins og staðan er í dag.

Komum þá að virkjanamálum á Íslandi því búið er að virkja vítt og breytt um landið. Í upphafi til að tryggja orku fyrir fólkið og fyrirtækin og heita vatnið notað til að kynda íbúðarhúsnæði. Umhverfisvænni orka er vandfundin í heiminum og höfum við verið í forystu í nýtingu jarðvarma og notkun á grænni orku. Hin síðari ár hefur hinsvegar orkan verið notuð til stóriðju og merkilegt nokk, það er ekki næg raforka í landinu til að senda á Vestfirðina ef íbúum fjölgar og fyrirtækin dafna. Varaafl Vestfirðinga nú er díselolía um 600 tonn á ári.

Víkur þá sögunni að Hvalárvirkjun, sóknarfærið sem íbúarnir sjá er auðvitað umhverfisvæn orka, hringtenging raforku og afhendingaröryggi á rafmagni á Vestfjörðum yrði stórbætt og næg rafmagnsframleiðsla fyrir fjórðunginn til framtíðar. Á umhverfisfræðamáli heitir þetta að verða sjálfbær um græna orku.

Ég hef kynnt mér matsskýrsluna um umhverfisáhrif virkjunarinnar og þar stendur. „Sjónræn áhrif framkvæmdanna munu hafa bein áhrif á upplifun af svæðinu og eru að mati skipulagsstofnunnar líkleg til að hafa neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu þar sem upplifun ferðamanna kemur til með að breytast á svæðinu.“

Í skýrslunni kemur auk þess fram að „Umhverfisáhrif virkjunarinnar eru ekki talin umtalsverð nema að víðerni sem nær frá Hornströndum að Steingrímsfjarðarheiði verður ekki lengur samfellt.“ Það er vitað að ferðamenn elska víðerni og fallega náttúru en höfum þó líka í huga að flestir þeirra heimsækja Reykjavík, Gullfoss, Geysi og Þingvelli. Þetta snýst ekki um þetta tæplega 1% ferðamanna sem leggja leið sína á Strandir heldur hvað viljum við og hvaða hagsmunir eru í húfi.

Strandamenn horfa auðvitað í að þeir fá bílfæra vegi og hvenær áður hafa sveitahéröð í byggð verið flokkuð sem víðerni?

Við viljum vöxt og viðgang í fjórðungnum en engan hef ég heyrt sem hefur áhuga á stóriðju og stórfelldum náttúruspjöllum. 

Eftir áratuga lægð í atvinnumálum er komin ný atvinnugrein „laxeldi“ á svæðið. Það er mikil samlegð með sjávarútvegi og laxeldi hvað varðar mannafla, þekkingarþörf og aðbúnað. Þjónustufyrirtækin á svæðinu hafa eflst og ný fræðistörf hafa orðið til. Hinsvegar hefur ekki verið settur sá kraftur í rannsóknir sem til þarf til að byggja upp nýja atvinnugrein og virðist þáttur opinberra aðila vera mjög fálmkenndur.

Við þurfum að taka ákvarðanir um framhaldið en neysla á laxi hefur aukist gríðarlega í hinum stóra heimi og það er mikilvægt að vega og meta hvort við viljum taka þátt í þeirri fæðuframleiðslu.

Allskonar upphrópanir heyrast um áhrif laxeldis og eru þar ólíkir hagsmunahópar að kallast á. Til gamans má geta þess að laxeldismenn á norðurlöndum hafa meira að segja gengið svo langt að auglýsa lax sem eina „umhverfisvæna“ fiskinn fyrir neytendur. Það er hinsvegar efni í aðra umræðu hvort er umhverfisvænna að borða villta ýsu með kartöflum eða ræktaðan lax. Allar öfgar í umræðunni eru ekki til bóta og mikilvægast er að finna jafnvægi en umhverfisfræði gengur einmitt út á að finna jafnvægi í sátt við náttúru og samfélag.

Ég hef hér stiklað á stóru um hvernig staðan er og ljóst að það eru grunn innviðirnir sem þurfa að vera í lagi og í takti við þarfir fjórðungsins.

Vestfirðingar vilja nota umhverfisvæna og örugga orku.

Vesfirðingar vilja góða, örugga vegi og netsamgöngur sem er lífæð samfélagsins.

Vestfirðingar vilja öfluga þjónusu fyrir íbúana og að sú opinbera þjónusta sem hefur minnkað vegna fólksfækkunar aukist aftur í réttu hlutfalli við fjölgun íbúanna.

Vestfirðingar vilja öflugt atvinnulíf í fullri sátt við náttúruna, öflugt mannlíf og sjálfbæra Vestfirði.

Það er vor fyrir Vestan.

 Guðrún Anna Finnbogadóttir

 

 

DEILA