„Áfall fyrir byggðina við Ísafjarðardjúp“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Það má ekki dragast úr hófi að kanna ítarlega mótvægisaðgerðir í Ísafjarðardjúpi til að laxeldi geti hafist þar án þess að stefna laxveiðiánum í hættu. Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og þingmanns Norðvesturkjördæmis, í grein í Morgunblaðinu um helgina. Hún segir stóru fréttirnar í áhættu mati Hafrannsóknastofnunar vera að unnt er að auka eldi á Vestfjörðum án þess að stofna villtum laxastofnum í öðrum landshlutum í hættu.

„Aftur á móti var það áfall fyrir byggðina við Ísafjarðardjúp að eldi þar teldist ekki óhætt, vegna hættu á að innblöndun í þremur laxveiðiám við Djúp færi yfir öryggismörk. Það er erfitt fyrir utanaðkomandi að gera sér í hugarlund höggið sem þetta var, eftir að væntingar höfðu verið uppi um álíka uppgang og orðið hefur annars staðar,“ segir í grein Þórdísar Kolbrúnar.

Hún bendir á að ekki sé víst að allir átti sig á að hagvöxtur á Vestfjörðum var neikvæður um 6% á árunum 2008-2015, líkt og fram kemur í nýrri skýrslu Byggðastofnunar um hagvöxt landshlutanna.

„Enginn annar landshluti upplifði samdrátt á þessu tímabili. Veruleiki Vestfjarða á þessu tiltekna tímabili er því einstakur á landsvísu. Það er inn í þetta samhengi sem setja þarf vonir fólks um aukin umsvif í atvinnulífi.“

DEILA