Ætlar að fylgjast með útblæstri skipa

Skemmtiferðaskip sigla í auknum mæli til Ísland og á norðurslóðir.

Mengun frá skemmtiferðaskipum hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu og af þeim sökum hefur Umhverfisstofnun áréttað hvaða reglur gilda um brennisteinsinnhald skipaeldsneytis við mismunandi aðstæður. Skipaeldsneyti, sem skiptist í þrjá megin flokka, þ.e. svartolíu, skipadísilolíu og skipagasolíu, inniheldur mismikið af brennisteini. Mest er af honum í svartolíu en minnst í skipagasolíu. Vegna brennisteinsinnihaldsins losna brennisteinsoxíð við bruna á skipaeldsneyti og veldur það mengun í andrúmslofti. Til þess að draga úr þessari mengun hafa verið settar takmarkanir á því hvert brennisteinsinnihald skipaeldsneytis má vera og það sama gildir raunar um allt fljótandi eldsneyti.

Í mengunarlögsögu Íslands gildir almennt sú regla að skip mega brenna svartolíu með hámarks brennisteinsinnihaldi upp á 3,5%. Um farþega- eða skemmtiferðaskip gilda þó aðrar reglur, þar má hámarks brennisteinsinnihald ekki fara yfir 1,5%, sem gerir það að verkum að þessi skip geta ekki nýtt sér svartolíu, þar sem hún inniheldur miklu meira af brennisteini. Þetta mun þó breytast frá og með 1. janúar 2020 þegar brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands má ekki vera hærra en 0,5%.

Gerðar eru reglulegar mælingar á innihaldi brennisteins í skipaeldsneyti sem flutt er hingað til lands. Hér að neðan má sjá niðurstöður fyrir 2016, en þá reyndust öll meðaltöl vera undir leyfilegu hámarks innihaldi:

  • Í skipagasolíu mældist að jafnaði 0,08% af brennisteini en innihaldið má vera allt að 0,1%
  • Í skipadísilolíu mældist að jafnaði 0,2% af brennisteini en innihaldið má vera allt að 1,5%
  • Í svartolíu mældist að jafnaði 1,9% af brennisteini en innihaldið má vera allt að 3,5%

Um öll skip, sem liggja við bryggju, gildir að þau skuli nýta sér rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis sé það mögulegt. Sé rafmagn ekki til staðar er heimilt að brenna skipaeldsneyti í staðinn, en settar takmarkanir á brennisteinsinnihald þess og má það ekki fara yfir í 0,1% . Mikilvægt er að staðreyna með mælingum hvort þessu sé framfylgt hér á landi. Hyggur Umhverfisstofnum á eftirlit með þessu á næstunni.

smari@bb.is

DEILA