Að lifa í ótta við brottvísun

Alejandra fékk ríkisborgararétt fyrir þremur árum og stundar nú nám við Háskóla Íslands.

 

Fyrir allan þorra landsmanna er ekki auðvelt að setja sig í spor barns sem á yfir höfði sér brottvísun af landinu líkt og nú vofir yfir hinni ellefu ára gömlu Haniye Maleki sem stjórnvöld hafa ákveðið að vísa úr landi á næstu dögum. Isabel Alejandra Diaz frá Ísafirði veit allt um hlutskipti barna sem íslensk stjórnvöld vilja burt, en frá því hún kom til Íslands frá El Savador fyrir 17 árum og allt fram til allra síðustu ára fékk hún reglulega hótanir um að henni yrði vísað burt. Alejandra lýsir þeirri reynslu sinni í grein í Stundinni í dag.

„Í fyrstu fékk ég tilkynningu um að mér yrði vísað úr landi á 30 daga fresti. Þessir 30 dagar urðu síðar að 6 mánaða fresti, sem  gaf okkur meiri tíma til undirbúnings en var í sjálfu sér ekkert skárra. Sex mánuðirnir urðu svo „loksins“ að einu ári. Fyrir mig sem barn voru þetta ekki bréf, þetta voru hótanir. Samfélagið á Ísafirði gerði mér þessi ár bærileg, auk minnar trúar og trausts á Guði, en ég komst aldrei undan óttanum. Sársaukinn sem ég fann var rosalegur og hann verður ávallt hluti af mér, en sú upplifun hefur mótað mig sem manneskju og mína sýn á heiminn,“ skrifar Alejandra og bætir við:

„Það fór mikill tími og orka í að halda baráttunni áfram; tala nú ekki um fjármunina sem bókstaflega glötuðust. Ég náði aldrei að skilja hvers vegna yfirvöld sýndu mér ekki skilning. Hvernig gerðu þau sér ekki grein fyrir þeim áhrifum sem þetta hefur á barn og sálarlíf þess? Er ég leit í kringum mig sá ég vini mína, nágranna mína, bæjarbúa og fleira fólk sem ég jafnvel þekkti ekki sýna mér skilning og líka kærleik. Ég áttaði mig þar af leiðandi ekki á hvers vegna fólkið sem hafði öll völdin gerði ekki hið sama – þau voru nú mennsk eins og ég og allir hinir.“

smari@bb.is

DEILA