10 milljarða soprbrennslustöð í Súðavík?

Súðavíkurhreppur er með til skoðunar að reisa risavaxna sorpbrennslustöð í sveitarfélaginu sem gæti annað stórum hluta landsins, ef ekki öllu landinu. Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir að málið sé á frumstigi og fleiri staðsetningar en Súðavíkurhreppur komi til greina. „Það er verið að ræða um hátæknisorbrennslustöð, sem er það umhverfisvænasta sem þekkist í sorpeyðingu í dag,“ segir Pétur. Hann bætir við að Íslendingar standi ekki frammi fyrir neinu vali þegar kemur að sorpförgun, urðun er á útleið innan ekki margara ára. „Við erum með tímabundna undanþágu til að fá að urða sorp og í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við þá er verið að brenna sorp í hátæknisorpbrennslustöðvum,“ segir Pétur.

Verkefnið er risastórt og heildarfjárfesting áætluð í kringum 10 milljarðar króna. Að sögn Péturs verður hægt að nýta hita úr stöðinni til að keyra hitaveitu fyrir svæðið.

Fyrir rúmlega 20 árum opnaði sorpeyðingarstöðin Funi á Ísafirði og þá voru gefin fyrirheit um að stöðin væri umhverfisvæn og í takt við allar nútímakröfur. Fyrir tæpum 7 árum var stöðinni lokað eftir að í ljós kom díoxínmengun frá stöðinni.

Pétur segir að sporin eigi ekki að hræða en segir að Funi eigi að kenna mönnum að hægt er að standa illa að rekstri svona stöðvar. „Að bera saman Funa og þessa stöð sem er til skoðunar í dag er eins og að bera saman epli og appelsínur. Að gera þetta á svona stórum skala, við erum að tala um 100 þúsund tonn af sorpi á ári, það veitir rekstrargrundvöll fyrir hátæknistöð eins og eru starfræktar miðsvæðis í Osló og Kaupmannahöfn. En við verðum að læra af Funa og átta okkur á því að það er hægt að gera þetta illa og það er hægt að gera þetta vel. En það er ljóst að framtíðin er ekki í urðun, það verður hreinlega ólöglegt. Og þá munu menn færa sig í sorpbrennslu og því ættum við Vestfirðingar ekki að taka af skarið.“

Samkvæmt hugmyndinni verða 8-10 afhendingarstaðir sorps hringinn í kringum landið og sem strandsiglingaskip koma á förgunarstað. Aðspurður hverjir standa að baki verkefninu segir Pétur að engir fjárfesta séu komnir að borðinu en Verkís hefur leitt vinnuna.

„Eðlilegasta næsta skref er að stofna þróunarfélag um verkefnið sem vonandi sveitarfélögn við Djúp verða aðilar að,“ segir Pétur.

smari@bb.is

DEILA