Vilja mengunarmælingar á Ísafirði

Svartolíuský á Ísafirði á stórum skemmtiferðaskipadegi. Mynd: Halldór Sveinbjörnsson

Ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um að fara í mengunarmælingar í og við Ísafjarðarhöfn vegna útblástur skemmtiferðaskipa, en Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, telur líklegt að ráðist verði í þær við fyrsta tækifæri. „Mér heyrist á bæjarfulltrúum og hafnarstjóra að það sé vilji til að fara í þetta,“ segir Gísli Halldór.

Í gær var greint frá mælingum sem Náttúruverndarsamtök Íslands stóðu fyrir á Sundahöfn í Reykjavík þegar skemmtiferðaskip voru í höfn og létu vélar ganga. Loftgæði mældust langtum verri en eðlilegt getur talist. Gísli Halldór segir að mælingarnar muni þá fara fram næsta sumar þar sem skemmtiferðaskipatímabilinu er alveg við það að ljúka á Ísafirði. „Ég tel síðan að Ísland eigi að setja sér markmið og reglur um að draga úr þessari kolefnislosun,“ segir Gísli Halldór.

Mælingarnar í Reykjavík sýna að magn örsmárra agna í útblæstri skipa var um 200 sinnum meira en eðlilegt má teljast.

Á blaðamannafundi í gær lagði Dr. Axel Friedrich, vísindalegur ráðgjafi við mælingarnar, áherslu á þann skaða sem mengun frá skipum getur valdið á heilsu almennings. „Loftmengun frá dísilvélum – örfínar agnir sem dreifast um langar vegalengdir, brennisteinn og köfnunarefnisoxíð – eru efni sem auka á gróðurhúsaáhrfin og valda skaða á heilsu fólks. Þessi efni valda hjarta- og æðasjúkdómum og öndunarfærasjúkdómum.“  Dr. Friedrich benti á að samkvæmt mati framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins látist árlega um 50 þúsund einstaklingar um af völdum loftmengunar frá skipum.

„Vélar eins og eru um borð á skemmtiferðaskipunum myndu ekki fá starfsleyfi á landi og það er hneyksli að skipafyritæki komist upp með að menga jafn mikið og raun ber vitni,” sagði Friedrich, og bætti við að fyrir hendi eru tæknilausnir sem duga vel til að leysa þennan vanda.

DEILA