Tekinn með 200 grömm af kannabis

Á þriðjudag í síðustu viku haldlagði lögreglan 200 grömm af kannabisefnum. Efnin voru í bíl sem var á leið til Ísafjarðar og fannst við leit eftir að lögreglan stöðvaði ökumann á leið til Ísafjarðar og vaknaði grunur um að ekki væri allt með felldu. Ökumaðurinn, sem var einsamall á ferð, var handtekinn og færður til yfirheyrslu. Lögreglan ætlar að efnin hafi átt að fara til dreifingar á norðanverðum Vestfjörðum.

Í yfirliti lögreglunnar um verkefni síðustu viku kemur fram að mannamót um verslunarmannahelgina fóru vel fram í öllu umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum.

Alls voru 71 ökumaður kærður fyrir of hraðan akstur í vikunni. Einn þeirra var kærður í tvígang sama dag í Ísafjarðardjúpi. Annar ökumaður, sem stöðvaður var fyrir hraðakstur, lyktaði af áfengi. Við blástur í áfengismæli kom í ljós að enn virtist áfengi vera í líkama hans. Hann var þó ekki yfir refsimörkum. Honum var gert að hætta akstri um stund.

Einn ökumaður var kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Einn ökumaður var kærður fyrir að hafa ekki skráningarnúmer framan á bifreið sinni. Eigendur og ökumenn eru hvattir til að hafa þessa hluti í lagi, panta ný merki ef þau sem fyrir eru glatast. Sekt við slíku nemur 10.000 krónum.

Sjö tilkynningar um að ekið hafi verið á búfé bárust lögreglunni.

Um miðjan dag þann 31. júlí barst hjálparbeiðni frá erlendum ferðamanni sem lenti í sjálfheldu á Rauðasandsheiði, á gönguleið til Keflavíkur. Björgunarsveitarmenn frá Blakki í Vesturbyggð og þyrla Landhelgisgæslunnar tóku þátt í björguninni. Maðurinn var heill á húfi en hafði lent í ógöngum eins og áður sagði.

Um miðjan dag þann 1. ágúst missti ökumaður bifhjóls stjórn á ökutækinu á Örlygshafnarvegi með þeim afleiðingum að hjólið og ökumaðurinn hafnaði utan vegarins. Meiðsl urðu ekki alvarleg en hjólið skemmdist töluvert.

Um kl.16:50 þann 4. ágúst valt fólksbifreið út af veginum í Hestfirði. Bifreiðin valt nokkrar veltur utan vegarins. Auk ökumanns voru tveir farþegar í bifreiðinni og voru þeir fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar, ekki þó með lífshættulega áverka. Svo virðist sem fallegt útsýni hafi truflað ökumann.

Að kveldi 4. ágúst barst hjálparbeiðni úr Hestfirði vegna ferðamanns sem hafði verið að klífa fjall en hrasað og slasast. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði, þó ekki lífshættulega slasaður.

Um hádegisbilið þann 6. ágúst missti erlendur ferðamaður stjórn á bílaleigubifreið á Örlygshafnarvegi. Bifreiðin ran út af veginum án þess þó að velta. Bifreiðin skemmdist töluvert Engin slys urðu á ökumanni eða farþegum.

Þann 7. ágúst barst tilkynning um umferðarslys á Steingrímsfjarðarheiði. En þar missti ökumaður húsbifreiða stjórn á ökutækinu með þeim afleiðingum að hún rann út af veginum og valt. Einn farþegi var í bifreiðinni, auk ökumanns. Ákveðið var að kalla til þyrlu LHG sem flutti hina slösuðu á sjúkrahús í Reykjavík. Áverkar voru alvarlegir en þó reyndust þeir ekki lífshættulegir.

Lögreglan á Vestfjörðum var með aukinn viðbúnað um verslunarmannahelgina. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar munu 802 bifreiðar hafa farið um Ísafjarðardjúp þegar mest var, þ.e.a.s. þann 4. ágúst. Umferðin var þétt meira og minna alla dagana eða að meðaltali 645 ökutæki um Ísafjarðardjúp á degi hverjum þessa daga. Á sama tíma munu, að meðaltali, 496 ökutæki hafa farið um Barðastrandaveg á degi hverjum.

smari@bb.is

DEILA