Stefna enn að eldi í Djúpinu

Kristján G. Jóakimsson.

Háafell ehf., dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf., ætlar ekki að leggja árar í bát og stefnir enn að fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. „Við munum vinna áfram heilir og beinir að því,“ segir Kristján G. Jóakimsson, verkefnastjóri Háafells, í samtali við bb.is. Í yfirlýsingu fyrirtækisins í gær var tilkynnt að Háafell hefur sagt sig úr Landssambandi fiskeldisstöðva vegna stuðnings sambandsins við stefnumótunarskýrslu sjávarútvegsráðherra. Í skýrslunni er lagt til að áhættumat Hafrannsóknastofnunar verði lögfest en í áhættumatinu er lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Í yfirlýsingunni segir Kristján að sé „í raun sorglegt að fólk sem vill bjarga sér sjálft sé svift þeim möguleika, svo aðrir geti skarað eld að eigin köku.“

Aðspurður um hverjir hafi skarað eld að eigin köku segir Kristján að það geti verið veiðiréttarhafar eða fulltrúar fiskeldisfyrirtækjann í nefndinni, þeir Kjartan Ólafsson stjórnarformaður Arnarlax og Guðmundur Gíslason stjórnarfomaður Fiskeldis Austfjarða.

Kristján segir að eins og staðan er í dag lítur út fyrir að ekkert laxeldi verði í Ísafjarðardjúpi. „En þetta er bara frá þessari nefnd og nær eins langt og það nær. Nú er að sjá hvernig þetta fer í gegnum þingið.“

Í skýrslunni er talsvert púður lagt í ræktun á geldfiski en áhættumat Hafró tekur ekki til eldis á slíkum fiskum. Kristján tekur fram að eldi á geldfiski er ekki raunverulegur kostur í dag, hvað sem síðar verður. „En við upplifðum það í þorskeldinu að það var alltaf einhver líffræðileg lausn handan við hornið sem svo aldrei kom.“

smari@bb.is

DEILA