Skoðar niðurgreiðslur á innanlandsflugi

Ísafjarðarflugvöllur. Mynd: Mats Wibe Lund.

Samgönguráðherra hefur skipað starfshóp til að kanna mögulegar leiðir til að niðurgreiða innanlandsflug fyrir þá sem búa fjarri höfuðborginni.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, er formaður starfshópsins, segir að hópurinn eigi bæði að skoða hvað gert sé í Noregi og einnig svokallaða skosku leið. „270-280 þúsund manns ef ég man rétt sem búa í dreifbýlinu fjarri helstu borgum Skotlands eru í hóp sem hefur rétt á ákveðnum afsláttarkjörum í flugi. Það eru 5-6 reglur á bak við það sem við ætlum að skoða hvernig myndu henta íslenskum aðstæðum. Þetta var 40% afsláttur en er nú komið í 50% af fullu fargjaldi. Norska leiðin er síðan kannski aðeins flóknari og snýr meira að fjármögnun flugleiða og flugvallarkerfisins,“ segir Njáll Trausti í samtali við fréttastofu RÚV.

Að mati Njáls Trausta er innanlandsflugið í raun almenningssamgöngur og geti komið í staðinn fyrir þá sem búa fjarri höfuðborginni. Hann bendir á að eins og stjórnkerfi Íslands hefur verið byggt upp undanfarin ár, hvort sem það er í heilbrigðisþjónust, mennta- eða menningarmálum þá hefur uppbyggingin verið á höfuðborgarvæðinu. „Ef þessar samgöngur eru ekki í lagi; aðgengi að borginni þá erum við ekki í góðum málum.“

DEILA