Skipar starfshóp um rekstur innanlandsflugvalla

Ísafjarðarflugvöllur.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skipað starfshóp til að fara yfir rekstur innanlandsflugvalla landsins. Markmiðið  er að ná fram hagkvæmari rekstri á innanlandsflugi og skilvirkari rekstri flugvalla sem leiði til lægri flugfargjalda. Starfshópnum er falið að fara yfir núverandi fyrirkomulag innanlandsflugsins, hugmyndir að breyttu fyrirkomulagi og meta hvaða leikreglur skili neytendum mestri hagkvæmni. Gert er ráð fyrir að tillögur taki mið af því að markaðslögmál verði nýtt eins og kostur er til að ná fram hagkvæmni við rekstur flugvalla og flugleiða, að verðlagning opinberra aðila verði eins gegnsæ og auðið er og að innanlandsflug stuðli að aðgengi landsmanna að þjónustu og afþreyingu, styrki atvinnurekstur á landsbyggðinni og þjóni ferðamönnum eins og best verður á kosið. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Miðað er við að starfshópurinn skili skýrslu með rökstuddum tillögum sem eru til þess fallnar að stuðla að markmiði verkefnisins. Ráðgert er að hópurinn skili áfangaskýrslu með helstu tillögum fyrir árslok og lokaskýrslu fyrir 1. maí 2018.

smari@bb.is

DEILA