Segir sorglegt að efnahags- og félagslegir þættir hafi orðið útundan

Sigurður Ingi Jóhannsson. Mynd: mbl.is / Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, leggur til leiðir að sætta deilendur í fiskeldismálum. Þorri almennings á norðanverðum Vestfjörðum og allir sveitarstjórnarmenn með tölu hafa lýst yfir megnri óánægju með tillögur starfshóps um stefnumótun í fiskeldi þar sem lagt er til að farið verði eftir áliti Hafrannsóknastofnunar um að loka Ísafjarðardjúpi fyrir laxeldi. Í grein Sigurðar Inga í Morgunblaðinu í dag segir hann að það sé „sorglegt til þess að vita að starfshópurinn hafi ekki geta komið sér saman um að taka tillit til mótvægisaðgerða,“ þegar fjallað var um áhættu af slysasleppingum og erfðablöndun. Sigurður leggur tvennt til. Í fyrsta lagi að bestu mögulegu tækni verði beitt til að hindra för sleppifiska upp í ár og bendir hann á að íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sé að þróa slíka tækni. Þá leggur hann einnig til að áhættumat Hafrannsóknastofnunar fái alþjóðlega rýni áður en það er lagt til grundvallar ákvarðanatöku í málinu.

Í greininni skrifar Sigurður Ingi:

„Það er sorglegt til þess að vita að ekki hafi verið gerð nein tilraun til þess að meta hin efnahags- og félagslegu áhrif af laxeldi í sjó, en á sama tíma er markmið skýrslunnar að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Það er tómt mál að tala um sjálfbært fiskeldi og ná sátt um greinina án þess að meta alla þrjá þættina.“

smari@bb.is

DEILA