Segir réttmætar væntingar í uppnámi

Pétur G. Markan.

Uppbygging tengd laxeldi Háafells ehf. í Súðavík er í uppnámi eftir niðurstöðu skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um áhættumat á erfðablöndun sem mælir gegn eldi á laxi í Ísafjarðardjúpi. Þetta segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps. Pétur bendir á að Háafell er alíslenskt eldisfyrirtæki í eigu útgerðarfyrirtækisins Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. og hefur stundað eldi í Ísafjarðardjúpi síðan árið 2002 og hefur verið með 7000 tonna umsókn um laxeldisleyfi í stjórnkerfinu síðan árið 2011.

„Hraðfrystihúsið Gunnvör er fyrirtæki í eigu heimamanna sem hefur stundað útgerð við Djúp í 75 ár og stundað farsælt eldi í Djúpinu síðan árið 2002 héðan frá Súðavík. Fyrstu viðbrögð við því að loka Djúpinu fyrir laxeldi eru að þetta setur ekki einungis áform fyrirtækisins í uppnám heldur líka réttmætar væntingar sveitarfélaganna og íbúanna,“ segir Pétur.

Pétur áréttar að áformað laxeldi Háafells sé mjög víðtækt og snerti ekki einungis Súðavíkurhrepp. „Sem dæmi er seiðaeldisstöð fyrirtækisins á Nauteyri í umdæmi Strandabyggðar, þjónusta og slátrun á eldisfiskinum er í Súðavíkurhrepp en vinnslan er í Ísafjarðarbæ.“

Að hans mati tekur Hafrannsóknastofnun ekki tillit til mótvægisaðgerða í áhættumati sínu. „Mótvægisaðgerðirnar gagnvart veiðiréttarhöfunum er að notast við þá tækni og þekkingu sem best hefur reynst erlendis til þess að koma í veg fyrir að mögulegur strokufiskur geti blandast í ánum en Hafrannsóknastofnun tekur ekki tillit til þessara aðgerða í sinni skýrslu,“ segir Pétur

Yfirlýsingar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra um að áhættumatið sé ekki endanlega niðurstaða er fagnaðarefni að sögn Péturs. „Stjórnvöldum gefst núna tækifæri í framhaldinu að meta þessar aðgerðir inní reikniregluna, horfa svo á heildarmyndina þar sem hagsmunir íbúa og fyrirtækja við Djúp hljóta að vega þungt og halda áfram skynsamlegri uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi“ segir Pétur.

Hann segir það skýlausa kröfu sveitarfélaganna við Djúp að auk áhættumats á áhrifum laxeldis á villta stofna verði gerð hagræn og félagsleg úttekt á áhrifum fiskeldis á samfélög við Djúp. „Það eru fleiri stofnar við Djúp en laxastofnar, hér býr fólk og það vill skjóta nýjum stoðum undir okkar góða samfélag. Við sveitarstjórnarmenn erum að vinna fyrir þetta fólk og við unum okkur ekki hvíldar fyrr en uppbygging fiskeldis í Ísafjarðardjúpi verður komin í réttan og farsælan farveg,“ segir Pétur G. Markan að lokum.

DEILA