Segir augljóst að laxeldi hefjist í Djúpinu

Gylfi Ólafsson.

„Hafandi skoðað áhættumatið og helstu hagrænu þætti er augljóst að uppfært áhættumat og formlegt mat á hagrænum áhrifum muni hvort tveggja verða til þess að Djúpið opni fyrir laxeldi strax á næstu árum.“ Þetta segir Gylfi Ólafsson, oddviti Viðreisnar í NV kjördæmi síðustu Alþingiskosningum og aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra. Í aðsendri grein Gylfa á bb.is í dag segir Gylfi að stóru fréttirnar í tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi vera þær að áhættulaust er talið að stórauka fiskeldi hér á landi, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum. „Það svæði, sem hefur verið í hvað mestum kröggum síðustu áratugi, er komið fyrir vind að þessu leyti. Uppbygging er framundan,“ skrifar Gylfi.

Hvað varðar Ísafjarðardjúp, segir Gylfi að áhættumatið sé ófullkomið og fleiri þætti þurfi að skoða.

„Ekki var tekið tillit til þeirra sleppinga gönguseiða sem stundaðar eru í öllum þeim þremur ám sem taldar eru í hættu; Langadalsá, Laugardalsá, Breiðdalsá. Erfðabreytileikinn í þessum þremur ám hefur ekki verið skoðaður sérstaklega. Ekki eru metin áhrif af þeim mótvægisaðgerðum sem í boði eru, svo sem notkun stærri seiða í eldi, vöktun áa og fleira. Ekki var metið hversu mikið eldið mætti vera í Ísafjarðardjúpi án þess að hafa merkjanlega áhættu í för með sér.

Auk þess er engu máli slegið í skýrslunni á það hvaða áhrif óvissuþættirnir hafa á niðurstöður áhættumatsins. Með orðum tölfræðinnar hefur engin næmisgreining verið birt.“

Í tillögum starfshópsins er lagt til að áhættumati Hafrannsóknastofnunar verði uppfært eigi síðar en á þriggja ára fresti. Krafan í Djúpinu er einföld að mati Gylfa og felst í því að áhættumatið verði uppfært eins fljótt og auðið er, og löngu áður en árin þrjú eru  úti.

smari@bb.is

DEILA