Samþykkir ekki lifandi plagg sem er „andvana fætt“

Teitur Björn Einarsson.

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, lýsir andstöðu við að tillögur starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi verði lögfest. Teitur Björn skrifar á Facebook að eitt og annað í tillögum starfshópsins sé gagnlegt og muni nýtast í frekari umræðu.  „Annað er óásættanlegt og ófullnægjandi. Það hefur legið fyrir nú um tíma að tillögur sem fjalla ekkert um eða greina ekki samfélagsleg áhrif og hagsmuni fólks í þeim byggðarlögum sem mest eiga undir hafa eðli máls samkvæmt mjög takmarkað gildi einar og sér sem einhver grundvöllur að breiðri samstöðu,“ skrifar Teitur Björn.

Að hans mati er næsta skref að dýpka og breikka umræðuna, meðal annars með samtölum við íbúa, sveitarstjórnarmenn, vísindasamfélagið og aðra hagaðila.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra hefur lagt áherslu á að áhættumat Hafrannsóknastofnunar sé lifandi plagg. Um þetta segir Teitur Björn: „Ég mun ekki samþykkja að lögfesta „lifandi plagg“ ef það er ekkert meira en andvana fætt.“

Hann segir að áður en lengra verði haldið eigi eftir að fá botn í nokkur veigamikil atriði og nefnir hversu hratt áhættumati fyrir Ísafjarðardjúp verður fullunnið þar sem tekið verður mið af þeirri þekkingu og tækni sem er til staðar til að koma í veg fyrir erfðablöndun.

smari@bb.is

DEILA