Hafrannsóknarstofnun leggur til að leyfðar verði veiðar á fimm þúsund tonnum af úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2017/2018 sem er nokkur aukning frá rágjöf yfirstandandi fiskveiðiárs sem var 4.100 tonn.
Í fréttatilkynningu kemur fram að stofnvísitala úthafsrækju sé svipuð og hún hefur verið frá árinu 2012 og yfir varúðarmörkum. Einnig var mikið af þorski á öllu svæðinu, eða svipað og hefur verið frá árinu 2015.
Í veiðiráðgjöf Hafró kemur fram að vísitala ungrækju hefur verið lág frá 2004 og var í sögulegu lágmarki árin 2015 og 2016. Stofnvísitalan hefur verið nokkuð stöðug frá árinu 2012. Stofnmælingin bendir til að stofninn muni ekki stækka á næstu árum.