„Ekki fara á skemmtiferðaskip og ekki fara á staði sem mörg slík heimsækja ef þú glímir við heilsufarsvandamál fyrir,“ sagði Dr. Axel Friedrich á blaðamannfundi Náttúruverndarsamtaka Íslands í morgun. Samtökin, með aðstoð þýsku náttúruverndarsamtakanna (NABU), stóðu í sumar fyrir mælingum á mengun frá skemmtiferðaskipum í Reykjavík. Greint er frá blaðamannafundinum á vef Morgunblaðsins.
Mælingar sem gerðar voru á mengun sýna að magn örsmárra agna í útblæstri skipa var um 200 sinnum meira en eðlilegt má teljast. Loftgæði í Sundahöfn verða margfalt verri en í miðborgum erlendra stórborga á borð við London, þegar skipin láta vélar sínar ganga við hafnarbakkann.
Friedrich er efnafræðingur og sérfræðingur í útblástursmálum og var á meðal vísindamanna sem komu upp um svikamyllu þýskra bílaframleiðenda, sem reyndu að fegra tölur um útblástur díselbíla.
„Loftmengun frá díselvélum – örfínar agnir sem dreifast um langar vegalengdir – brennisteinn og köfnunarefnisoxíð eru efni sem auka á gróðurhúsaáhrifin og valda skaða á heilsu fólks,“ sagði Friedrich á fundinum og benti á að þessi efni valda hjarta- og æðasjúkdómum sem og öndunarfærasjúkdómum og að samkvæmt mati framkvæmdastjórnar ESB látist árlega um 50 þúsund einstaklingar af völdum loftmengunar frá skipum.
„Vélar eins og eru um borð í skemmtiferðaskipunum fengju ekki starfsleyfi á landi og það er hneyksli að skipafyrirtæki komist upp með að menga jafnmikið og raun ber vitni,“ sagði Friedrich og bætti við að fyrir hendi séu tæknilausnir sem dugi vel til að leysa þennan vanda.
smari@bb.is