Ráðleggur fólki að halda sig fjarri skemmtiferðaskipum

„Ekki fara á skemmti­ferðaskip og ekki fara á staði sem mörg slík heim­sækja ef þú glím­ir við heilsu­far­svanda­mál fyr­ir,“ sagði Dr. Axel Friedrich á blaðamannfundi Náttúruverndarsamtaka Íslands í morgun. Samtökin, með aðstoð þýsku nátt­úru­vernd­ar­sam­tak­anna (NABU), stóðu í sumar fyrir mælingum á mengun frá skemmtiferðaskipum í Reykjavík. Greint er frá blaðamannafundinum á vef Morgunblaðsins.

Mæl­ing­ar sem gerðar voru á meng­un sýna að magn ör­smárra agna í út­blæstri skipa var um 200 sinn­um meira en eðli­legt má telj­ast. Loft­gæði í Sunda­höfn verða marg­falt verri en í miðborg­um er­lendra stór­borga á borð við London, þegar skip­in láta vél­ar sín­ar ganga við hafn­ar­bakk­ann.

Friedrich er efna­fræðing­ur og sér­fræðing­ur í út­blást­urs­mál­um og var á meðal vís­inda­manna sem komu upp um svika­myllu þýskra bíla­fram­leiðenda, sem reyndu að fegra töl­ur um út­blást­ur dísel­bíla.

„Loft­meng­un frá dísel­vél­um – örfín­ar agn­ir sem dreifast um lang­ar vega­lengd­ir –  brenni­steinn og köfn­un­ar­efn­isoxíð eru efni sem auka á gróður­húsa­áhrif­in og valda skaða á heilsu fólks,“ sagði Friedrich á fundinum og benti á að þessi efni valda hjarta- og æðasjúk­dóm­um sem og önd­un­ar­færa­sjúk­dóm­um og að sam­kvæmt mati fram­kvæmda­stjórn­ar ESB lát­ist ár­lega um 50 þúsund ein­stak­ling­ar af völd­um loft­meng­un­ar frá skip­um.

„Vél­ar eins og eru um borð í skemmti­ferðaskip­un­um fengju ekki starfs­leyfi á landi og það er hneyksli að skipa­fyr­ir­tæki kom­ist upp með að menga jafn­mikið og raun ber vitni,“ sagði Friedrich og bætti við að fyr­ir hendi séu tækni­lausn­ir sem dugi vel til að leysa þenn­an vanda.

smari@bb.is

DEILA