Plastlaus september

Plast safnast saman í náttúrunni þar sem það brotnar hægt niður .

Plastlaus september er árvekniátak, sem hefst þann 1. september 2017. Tilgangur verkefnisins er að vekja fólk til umhugsunar um plastnotkun og þann plastúrgang sem fellur til dagsdaglega og leita leiða til að minnka plastnotkun. Gríðarlegt magn af einnota plasti endar í landfyllingum og í hafinu sem er mikið áhyggjuefni. Allt plast sem hefur verið framleitt er enn til, það brotnar niður í smærri einingar en eyðist ekki.

Plast er eingöngu hægt að endurvinna í annað plast af lélegri gæðum. Allt plast sem við notum og fer ekki til endurvinnslu, safnast fyrir á urðunarstöðum eða í náttúrunni og veldur þar skaða um ókomna tíð.  Plast endar allt of oft í náttúrunni, og þá sérstaklega í ám, vötnum og sjó. Plast dregur til sín ýmis mengunarefni og þegar það endar í vef lífvera geta efnin þar með endað í fæðu okkar. Mjúkplast inniheldur stundum hormónaraskandi efni (t.d. þalöt) sem eru skaðleg mannfólki.

Plastlaus september hvetur til minni kaupa á einnota plasti í september, hægt er að skrá þátttöku sína á vef átaksins og velja hvort taka skuli þátt í einn dag, eina viku, heilan mánuð eða til frambúðar.

Á vef átaksins er verkefnalisti með leiðbeiningum.

Það eru sjö konur sem standa að verkefninu, þær eru með ólíkan bakgrunn, menntun og reynslu en fyrirmynd átaksins kemur frá Ástralíu en þar var plastlaus júlí.

bryndis@bb.is

DEILA