Litlar líkur á fipronil í íslenskum eggjum

Í síðustu viku bárust upplýsingar frá Evrópu um að sníklalyfið fiponil hafi greinst í eggjum í Hollandi. Dreifing eggja frá ákveðnum eggjaframleiðendum var stöðvuð í kjölfarið. Heil egg á markaði hérlendis eru af íslenskum uppruna. Unnar eggjaafurðir, t.d. gerilsneyddar eggjarauður, eggjahvítur og eggjaduft eru fluttar til landsins og samkvæmt athugun Matvælastofnunar eru þær upprunnar í Bretlandi, Danmörk, Hollandi og Þýskalandi. Ekki hafa borist tilkynningar frá Evrópska viðvörunarkerfinu (RASFF) um að menguðum eggjaafurðum hafi verið dreift til landsins.

Ein sending af eggjarauðudufti frá Hollandi var að berast til landsins og hefur framleiðandi vörunnar upplýst að hráefni í hana komi ekki frá þeim eggjaframleiðendum sem hafa notað sníklalyfið fipronil. Áður en til dreifingar kemur mun Matvælastofnun afla frekari upplýsinga um uppruna og gæði hráefna í þeim tilgangi að tryggja öryggi afurða.

Aðskotaefnaáætlun landbúnaðarafurða hjá Matvælastofnun tekur m.a. mið af sýnatökum og prófunum á afurðum með hliðsjón af magni innfluttra lyfja og því hefur greining á efninu fipronil ekki verið hluti af henni.

Einkenni eitrunar vegna fipronil  geta verið ógleði, magaverkir, svimi, uppköst og flogaköst. Til langs tíma getur efni valdið lifrar- og nýrnaskaða.

bryndís@bb.is

DEILA