Laxeldi í Djúpinu verði bannað

Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi leggur til að áhættumat Hafrannsóknastofnunar verði grunnur að útgáfu rekstrarleyfa í fiskeldi og heimiluðu framleiðslumagni á frjóum fiski. Í áhættumatinu, sem var birt fyrr í sumar, er lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Skýrsla starfshópsins var gerð opinber í dag og þar er lagt til að áhættumat Hafrannsóknastnunar verði bundið í lög. Starfshópurinn leggur einnig til að gefin verði út reglugerð sem kveður á um skyldu til notkunar ófrjórra laxa í sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi, en slíkt eldi er enn sem komið er óraunhæft vegna mikils framleiðslukostnaðar.

Lagt er til að þeir sem ala fisk í sjókvíum greiði auðlindagjald, allt að 15 krónur á hvert framleitt kíló af eldislaxi í sjó. Þá segir að auðlindagjald gæti skilað rúmlega einum milljarði króna ef framleitt magn af frjóum laxi fer yfir 67.000 tonn. Stærstur hluti auðlindagjalds eigi að renna til uppbygginga innviða á þeim landsvæðum sem nýtast við eflingu sjókvíaeldis.

DEILA