Laxeldi eða laxapíning?

Áróður gegn fiskeldi á Vestfjörðum hefur farið vaxandi.  Sumir sem standa fyrir áróðrinum segjast vera að verja villta laxastofna í ám á Vestfjörðum gegn einhverri kynblöndun.

Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að veiða og sleppa villtum laxi í ám á Íslandi.   Svo langt er þessi della gengin að það þykir orðið til skammar  að veiðimaður komi með veiddan villtan lax í veiðihús.

Er það alveg eðlilegt,  að það þyki bara fínt að stunda svona sport sér til gamans,  kvelja villta laxa á stöng í 20 til 60 mínútur. Ekkert gefið eftir fyrr en fiskurinn er að niðurlotum kominn.

Spurningin er svo hvort það sé virkilega ekkert athugavert við svona meðferð á villtum laxastofnum?

Hvað segja umhverfisverndarsamtök  eða félög sem berjast gegn dýraníði.  Þarf þessi meðferð ekki í umhverfismat.

Svo er það málið með fiskeldið í Ísafjarðadjúpi sem talið er geta skilað 30 þúsund tonnum af laxi til útflutnings á ári  á  1100 kr/kg.  Verðmætið er þá um 33 milljarðar. Nýjar tekjur árlega  fyrir íbúa fyrirtæki og sveitarfélög á Vestfjörðum.   Tekjur allrar þjóðarinnar af þorskstofninum árlega eru um 60-70 milljarðar.   Áformað laxeldi í Ísafjarðadjúpi er því um helmingur af verðmætum þorskstofnsins árlega.

Ef þetta er svo borið saman, 33 milljarðar árlega í nýjar tekjur fyrir Vestfirði,  borið saman við áhættu af meintri kynblöndun við villta laxastofna í ám á Vestfjörðum þá finnst mér mikilvægasta spurningin þessi:

Hvaða máli skiptir með lax sem er veitt og sleppt,   hvort hann er kynblandaður eða ekki?

Níels A. Ársælsson

Tálknafirði.

DEILA