Landmenn aldrei fleiri

Fjórfalt fleiri fluttu til landsins en frá því á öðrum ársfjórðungi 2017 og fæddir umfram látna voru tvöfalt fleiri. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar um fólksfjölda sem gefnar voru út í dag. Íslendingar eru orðnir 343.960 talsins eftir að hafa fjölgað um 3.850 á þremur mánuðum. Landsmenn hafa aldrei verið fleiri.

Á 2. ársfjórðungi fæddust 1.000 börn, en 550 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 3.400 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Aðfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 270 umfram brottflutta, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 3.130 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.

Danmörk var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara en þangað fluttust 130 manns á 2. ársfjórðungi. Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 270 íslenskir ríkisborgarar af 430 alls. Af þeim 590 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 150 manns.

Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar voru frá Danmörku (170), Noregi (190) og Svíþjóð (110), samtals 480 manns af 710. Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 1.670 til landsins af alls 3.720 erlendum innflytjendum. Litháen kom næst, en þaðan fluttust 490 erlendir ríkisborgarar til landsins. Í lok 2. ársfjórðungs bjuggu 34.460 erlendir ríkisborgarar á Íslandi.

DEILA