Ítrekað rafmagnsleysi

Unnið við rafmagnslínu.

Í gær urðu rafmagnsnotendur á Vestfjörðum fyrir ítrekuðu rafmagnsleysi sem varði talsverðan tíma og varaaflið virtist ekki virka. Að sögn Elíasar Jónatanssonar orkubússtjóra var bilunin vegna fyrirbyggjandi viðhalds hjá Landsneti á Geiradalslínu sem liggur á milli Glerárskóga og Geiradals. Línan er hluti línu sem liggur úr Hrútatungu í Mjólká og tengir Vestfirði við meginflutningskerfi raforku. Samkvæmt tilkynningum frá Landsneti var kerfið óstöðugt með sveiflur á tíðni og spennu.

Af óútskýrðum orsökum fór snjallnetið út um leið og það þýðir að ræsa þarf kerfið upp handvirkt. Snjallnetið er tölvuforrit sem stýrir rofum og það er hlutverk þess að stýra uppkeyrslu á varaafli þegar þess gerist þörf. Ekki lágu fyrir upplýsingar hjá Orkubúinu um hve oft eða hvers vegna snjallnetið hefur dottið út á árinu.

Lengst var rafmagnslaust í Súðavík en þangað náðist alls ekkert samband frá stjórnstöð og þá þarf að senda mann á staðinn.

bryndis@bb.is

DEILA