Hundur að sunnan er ekki nóg fyrir Vestfirðinga!

„Vesturlína, aðalorkuflutningslína Landsnets til Vestfjarða, bilaði aðfaranótt föstudags og er hún enn biluð. Búist er við að viðgerð á henni ljúki í kvöld. Síðastliðna nótt varð bilun í Mjólkárvirkjun sem veldur því að þar er nú engin orka framleidd. Í morgun bilaði díselvél á Þingeyri og í kjölfar þeirrar bilunar hefur þurft að skammta rafmagn á norðanverðum Vestfjörðum. Búast má við rafmagnsleysi í 1-2 tíma í senn þar sem skammtað er. Skorað er á íbúa á norðanverðum Vestfjörðum að spara rafmagn sem kostur er.“

Svo segir í Morgunblaðinu 24. janúar 2009.

Slíkar og þvílíkar fréttir og tilkynningar hafa verið daglegt brauð hér fyrir vestan í áratugi. Menn eru löngu orðnir hundleiðir á þessu ástandi. Oft kemur það fyrir að spenna fer upp eða niður eftir atvikum. Þá verða menn fyrir alls konar fjárhagslegu tjóni og leiðindum. Þetta er vont og það venst ekki. Rekstraröryggið í rafmagnsmálum Vestfirðinga hefur sárvantað og er úti í Hróa hetti! Svo er verið að keyra díselvélar þegar allt um þrýtur.  Þetta sjá allir menn, eins og síra Baldur tók oft til orða. Spyrja verður: Þarf þetta að vera svona?

Sagan segir okkur, að Mjólkárvirkjun í botni Borgarfjarðar, sem er einn af innfjörðum Arnarfjarðar, hafi tekið til starfa 1958. Mjólká 1 var 2,400 kílówött. Seinna komu svo ýmsar dótturvirkjanir þar til sögunnar ásamt nokkrum smávirkjunum annarsstaðar. Síðan kom „hundur að sunnan“ í formi rafmagnslínu sem kallast Vesturlína. Hefur hún séð Vestfirðingum fyrir stórum hluta þeirrar raforku sem þeir hafa þurft á að halda. Þetta er góður hundur, en klikkar oft þegar verst gegnir.

Nú er vitað að flestar ef ekki allar stórvirkjanir okkar eru staðsettar á sívirku eldgosabelti landsins. Og flutningslínur eru þvers og kruss um allt það landssvæði. Sú staða getur því hæglega komið upp að Vestfirðir fái ekki eitt einasta kílóvatt eftir hundinum að sunnan, jafnvel langtímum saman. Á þetta hafa vísir menn margoft bent.

Mjólká 1 var byggð við mjög frumstæðar aðstæður. Hálfgert kraftaverk. Hún veitti birtu og yl um Vestfirði og gerði þá byggilegri. Ráðherra raforkumála sagði við vígslu hennar, að virkjunin myndi duga Vestfirðingum í nánustu framtíð. Sá spádómur rættist nú ekki. Þá þurfti að reisa stauravirki og strengja víra yfir fjöll og firnindi, strendur, firði og dali. Mikilvirkir, stórhuga og lagtækir menn voru þar að verki. Það er ekki þeirra sök að náttúruöflin hafa stundum kubbað rafmagsstaurana sundur eins og eldspýtur, oft í tugatali í einu. Þá hefur fjalladeild Orkubús Vestfjarða og fleiri oft unnið þrekvirki við að koma rafmagni aftur á. Svona hefur þetta gengið endalaust.

Það var kraftaverk að rafvæða Vestfirði á sínum tíma. Og koma orkunni nánast á hvert byggt ból þegar upp var staðið. En það þurfti staura og línur. Ekki er vitað til að nokkur Vestfirðingur né aðrir hafi beðið tjón á sálu sinni þrátt fyrir alla þá nauðsynlegu tréstaura sem stóðu undir rafmagnslínunum og standa enn. Hitt er annað að auðvitað vilja flestir góðir menn að rafstrengir séu í jörðu. Það ætti nú ekki að vera ofverkið okkar í dag miðað við fyrri afrek í dreifingu rafmagns.

Vestfirðinga sárvantar öruggt og stöðugt rafmagn. Lái þeim það hver sem vill. Þetta eilífa basl þeirra að halda rafmagninu inni er löngu orðinn brandari. En þeir eiga að framleiða sitt rafmagn sjálfir. Þeir eru ekkert of góðir til þess! Á Vestfjörðum er hægt að reisa og reka öruggustu vatnsvirkjanir landsins. Það hlýtur bara að vera þjóðhagslega hagkvæmt. Vestfirðingar gætu svo selt öðrum landsmönnum pottþétta orku allan ársins hring í smáum stíl, ef út í það væri farið. Þetta vita allir menn, góði, hefði sálusorgarinn í Vatnsfirði sagt!

Upp með Vestfirði!

Hallgrímur, Guðmundur og Bjarni

DEILA