Í lok júlí veiddist hnúðlax í sýnatökunet í Patreksfirði. Veiðarnar eru hluti af vöktun lúsa á villtum laxfiskum á Vestfjörðum sem Náttúrustofa Vestfjarða vinnur að. Á norðanverðum Vestfjörðum eru lögð net í Dýrafjörð, Önundarfjörð, Súgandafjörð og Ísafjarðardjúp. Á sunnanverðum Vestfjörðum í Patreksfjörð, Tálknafjörð og Arnarfjörð en þar eru sýnatökur gerðar í samstarfi við Evu Dögg Jóhannesdóttur sem er að vinna að meistaraverkefni sem er svipað og verkefni Náttúrustofunnar.
Hnúðlaxinn sem veiddist er fallegur fiskur og á vef Náttúrustofunnar segir að hann hafi verið án áverka og með alla ugga heila. Á fisknum voru fimm fiskilýs en engin bitför var að sjá.
Hnúðlax (Oncorhynchus gorbuscha) er einnig þekktur sem bleiklax og er laxategund sem á ættir sínar að rekja í Kyrrahaf og er algeng þar. Laxinn er auðþekktur á dökkum hringlaga blettum á sporðinum og fíngerðu hreistri¹. Hnúðlaxinn sem fannst í Patreksfirði var kynþroska hængur en hann þekkist m.a. á hnúð á bakinu.
Hnúðlaxar sem flækjast um í Evrópu koma líklega frá Rússlandi en þar voru gerðar tilraunir um 1960 til að sleppa hnúðlaxaseiðum í ár á Kólaskaga. Talið er að þessi stofn hafi dreift sér að einhverju leyti og vísbending er um að hann sé að ná fótfestu í nokkrum ám í Noregi.
smari@bb.is