Háafell segir sig úr úr Landssambandi fiskeldisstöðva

Kristján G. Jóakimsson

Háafell ehf., dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf., hefur sagt sig úr Landssambandi fiskeldisstöðva (LF). Ástæða úrsagnarinnar er nýbirt skýrsla starfshóps um stefnumótun í fiskeldi þar sem lagt er til að áhættumat Hafrannsóknastofnunar verði leiðbeinandi í skipulagngingu á fiskeldi á Íslandi. Í áhættumatinu er lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi þar sem Háafell hefur áformað 7.000 tonna laxeldi frá því 2011. Í yfirlýsingu á vefsíðu HG segir að fulltrúar Landssambands fiskeldisstöðva hafi athugasemdalaust skrifað undir skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi þar sem áform um uppbyggingu laxeldis í Ísafjarðardjúpi eru slegin út af borðinu.

Kristján G. Jóakimsson, verkefnastjóri Háafells, hefur setið í stjórn LF. Í yfirlýsingunni segir að Háafell hafði samþykkt í stjórn LF að skrifað yrði undir stefnumótunarskýrsluna með því skilyrði að lögð yrði fram bókun þar sem athugasemdir fyrirtækisins kæmu fram. Athugasemdirnar lúta m.a. að mótvægisaðgerðum vegna erfðablöndunar, að tekið verði tillit til samfélagslegra, efnahagslegrar og byggðalegrar þýðingar í stefnumótunarskýrslunni. „Fyrir því var vilji innan stjórnar LF en á ögurstundu þegar skrifa átti undir dró LF bókun sína til baka og var skrifað undir athugasemdalaust. LF eru sameiginleg hagsmunasamtök fiskeldisfyrirtækja á Íslandi sem hafa með þeirri ákvörðun sinni  að skrifa undir skýrsluna án athugasemda, sýnt að þau starfi ekki í þágu allra aðildarfélaga sinna. Þegar ákvarðanir og vinnubrögð LF ganga í berhögg við stefnu, sýn og hagsmuni aðildarfélags er vandséð að þau eigi samleið mikið lengur. Eftir mikla ígrundun er það því niðurstaða Háafells að segja sig frá samstarfi við LF.“

Í yfirlýsingunni er eftirfarandi haft eftir Kristjáni:

„Það er augljóst að með þessu er ekkert tillit tekið til þeirrar vönduðu og miklu vinnu sem við höfum lagt í á undanförnum árum. Því síður eru hagsmunir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum nokkurs metnir. Og það er í raun sorglegt að fólk sem vill bjarga sér sjálft sé svipt þeim möguleika, svo aðrir geti skarað eld að eigin köku.“

DEILA