Forgangsatriði að grípa til verndunaraðgerða á Látrabjargi

Ferðamenn á Látrabjargi.

Það þarf að stórefla gæslu, viðveru og upplýsingafjölf á Látrabjargi að sögn Eddu Kristínar Eiríksdóttur, starfsmanna Umhverfisstofnunar á suðurfjörðum Vestfjarða. Ítarlegt viðtal við hana er á vef Umhverfistofnunar. Hún segir umhverfi bjargsins sé farið að láta á sjá og því sé það algjört forgangatriði að grípa til aðgerða. „Það er sameiginlegt mat allra sem hafa komið að málum hér, mat ferðamanna, landeigenda, sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar,“ segir Edda Kristín.

Hún segir að ræða þurfi upphátt og opinskátt að Látrabjarg sé einn þeirra staða sem hafi drabbast niður og brýnt sé að grípa til ráðstafana. Sár hafi myndast á bjarginu þar sem göngustígur sé á köflum orðinn fjór- eða fimmfaldur. Lundanum hafi fækkað mikið, hann færi sig til undan ágangi. „Hér verpa nokkrar ábyrgðartegundir Íslendinga svokallaðar, tegundir þar sem stór hluti stofnsins á heimsvísu byggir afkomu sína á tilteknum svæðum innan einstakra þjóðríkja. Hér er líka stærsta álkuvarp í Evrópu og ritan er einnig mjög áberandi. Besta mögulega niðurstaðan væri að mínu mati sú að fá friðlýsingu og að Umhverfisstofnun fengi fulla umsjá yfir bjarginu. Við gætum þá lokað Látrabjargi á viðkvæmum tímabilum þegar fuglinn þarf að fá frið. Lundinn fer ekki í holur ef það er fólk í kringum hann. Nú orðið má segja að yfir sumarið sé fólk allan sólahringinn á Látrabjargi, þótt bannað sé að tjalda hér. En svona ferlar geta verið flóknir. Inn í þessi friðlýsingarmál blandast ósætti um deiliskipulag, kærðar framkvæmdir sveitarfélagsins og fleira.“

smari@bb.is

DEILA