Fjórfalda söluna í Bandaríkjunum

Ísfirska fyrirtækið Kerecis hefur verið að gera það gott upp á síðkastið. Fyrirtækið var valið Frumkvöðull ársins hjá Viðskiptablaðinu árið 2015 og nýverið hlaut fyrirtækið Vaxtasprotann árið 2017 og er á nýbirtum lista tímaritsins Podiatry Today yfir 10 helstu uppgötvanir í sárageiranum. „Við erum að leggja megin áherslu á Bandaríkjamarkað og þetta er mest lesna blaðið í sárageiranum þar hjá læknum sem eru að fást við sykursýkissár. Þannig að það staðfestir að við erum komin á kortið sem ein af leiðandi og mest vaxandi lausnum í þeim geira,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Kerecis, í samtali við blaðamann Viðskiptablaðsins.

„Við erum með fjóra sölumenn sem eru að selja vöruna okkar til sjúkrahúsa í Bandaríkjunum og 20 umboðssölumenn. Við erum að gefa út skuldabréf með breytirétti, sem fer í að fjármagna fjölgun okkar eigin sölumanna upp í 10 og ætlum svo í hlutafjárútboð í lok næsta árs,“ segir hann. „Við gerum ráð fyrir að skuldabréfið verði 300 – 500 mkr. að stærð og erum að byrja kynningu á því,“ bætir hann við.

Sala á vörum fyrirtækisins í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi á þessu ári var meiri en allt árið í fyrra og Guðmundur segir að fyrirtækið muni fjórfalda söluna vestan hafs í ár.

smari@bb.is

DEILA