Fiskur er framtíðin

Mikil umfjöllun hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum um uppbyggingu fiskeldis hér á Íslandi, enda eðlilegt að þegar nýjar atvinnugreinar ryðja sér til rúms takast á ólík sjónarmið og ekki allir á eitt sáttir um hvernig standa skuli að uppbyggingunni. Fiskeldi í sjókvíum er þó ekki nýtt af nálinni hér á landi, en áform um mikla aukningu hafa legið fyrir.

Vegna mikillar fólksfjölgunar í heiminum hefur neysla á fiski og hverskyns sjávarfangi aukist mikið á síðustu árum. Þessari aukningu hefur að stærstum hluta verið mætt með fiskeldi, enda villtir stofnar að mestu fullnýttir.

Enginn vafi liggur á því að fiskeldi er framtíðin, en spurningin er hvort að við Íslendingar ætlum að taka þátt í framleiðslunni. Frá árinu 1988 hafa almennar fiskveiðar verið nokkuð stöðugar, þegar þær fóru upp í tæp 90 milljón tonn, eftir að hafa aukist sífellt ár frá ári með aukinni eftirspurn og tækni í fiskveiðum. Frá 1988 til dagsins í dag hafa veiðar verið rétt undir 100 milljónum tonna, en eldi á sjávarfangi hefur hins vegar aukist gríðarlega frá árinu 1988, þegar eldi á sjávarfangi var ekki nema rétt rúmlega 15 milljónir tonna.

Árið 2014 hafði hinsvegar orðið viðsnúningur á þessu, en þá fór framleitt magn úr eldi yfir 100 milljónir tonna og bendir allt til þess að aukning verði áfram á næstu árum (FAO, 2017).

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að skrifa þessa grein, er sú að lítið hefur komið fram um skoðanir ungs fólks á þessu máli og þá sérstaklega ungs fólks á Vestfjörðum, þar sem áform hafa legið fyrir um mikla aukningu í fiskeldi í sjó. Uppbygging fiskeldis skiptir okkur Vestfirðinga gríðarlega miklu máli og óhætt er að segja að niðurstöður Hafrannsóknastofnunar um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi séu gríðarleg vonbrigði. Í niðurstöðum stofnunarinnar kemur fram að möguleg erfðablöndun verði á villtum laxastofnum í Laugardalsá, Hvannadalsá/Langadalsá í Ísafjarðardjúpi og Breiðdalsá í Breiðdalsvík. Af þessum ástæðum er lagt til að ekki verði leyft eldi í Ísafjarðardjúpi vegna mögulegra neikvæðra áhrifa á villta laxastofna í Djúpinu. En skiptir möguleg erfðablöndun það miklu máli, að koma á í veg fyrir þessa miklu atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum?

Halldór Jónsson skrifaði grein á vefsíðu Morgunblaðsins 2. ágúst síðastliðinn um fjárhagslega hagsmuni laxveiðiáa í Ísafjarðardjúpi þar sem tekjur af umræddum þremur ám í Ísafjarðardjúpi séu í besta falli 20-25 milljónir á ári og ekkert starf skapast á Vestfjörðum vegna þessarar starfsemi, svo vitað sé. Í skýrslu Byggðastofnunar kemur fram að ef fram­leidd eru 40.000 tonn af eld­is­fiski á ári hafi það í för með sér í kring­um 520 bein störf og um leið 416 af­leidd störf. Sam­tals geti þá 2.246 íbú­ar byggt af­komu sína frá slíku fisk­eldi sam­kvæmt út­reikn­ing­um Byggðastofn­un­ar. Útflutn­ings­verðmæti 40.000 tonn fisk­eldisaf­urða gætu orðið allt að 38,7 millj­arðar, eft­ir kílóverði hverju sinni. Jafnframt er fiskeldi ein umhverfisvænasta próteinframleiðsla sem við þekkjum. Sem dæmi má nefna að fóðurstuðull landdýra er mun hærri en sjávardýra, en fóðurstuðull er fóðurinntaka deilt með þyngdaraukningu hvers dags. Gefa þarf nautgripum til að mynda um 8 kílógrömm af fóðri og um 30 lítra af vatni til þess að stækka um eitt kílógramm, fyrir utan gríðarlegt pláss af landi og mikils magns af metani sem nautgripin skila frá sér. Fóðurstuðull laxa (Atlantic Salmon) er ekki nema 1,3 sem gerir 1,3 kílógrömm af fóðri til þess að hann stækki um 1 kílógramm. Önnur landdýr eins og svín hafa fóðurstuðulinn 3 og alifuglar 2 ,sem er einnig mun meira en í laxi. Það verður að horfast í augu við það að framleiðsla á matvælum mun alltaf hafa áhrif. Áskorun okkar er að meta kosti og galla framleiðslunnar og leita leiða til að lágmarka neikvæð áhrif.

Frá árinu 1991, sem er árið sem ég fæddist, hefur verið stöðug fólksfækkun á Vestfjörðum með nokkrum undantekningum. Núna er kominn tími til þess að snúa við blaðinu og fjölga íbúum, fá fleiri tækifæri og meiri uppbyggingu á Vestfjörðum með fiskeldi. Til þess þurfum við Vestfirðingar að standa saman.

Freysteinn Nonni Mánason, sjávarútvegsfræðingur

DEILA