Finnur ekki rök gegn áhættumatinu

Haraldur Benediktsson. Mynd: Ómar Óskarsson.

Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis, segist ekki vera andvígur laxeldi í Ísafjarðardjúpi en segist jafnframt ekki finna rök gegn áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Þetta kemur fram í aðsendri grein Haraldar á bb.is í dag. Haraldur áréttar að áhættumatið geti tekið breytingum og hann telur vafalítið að eldi verði í Djúpinu með tíð og tíma. Í greininni segir Haraldur að ef aðeins væri um að ræða þrjár litlar laxveiðiár í Djúpinu mætti vel nota leikreglur laga og réttar og semja sig að niðurstöðu. „Það gilda hinsvegar ákveðnar skyldur og  lög um vernd á villtum stofni laxa. Það er ekki svo, þótt það virðist ósanngjarnt, að miklir hagsmunir margra víki til hliðar minni hagsmunum fárra,“ segir í greininni.

Hann lýkur greininni á þessum orðum:

„Ég held með Skagamönnum í knattspyrnu á hverju sem gengur. Ég þarf ekkert að rökstyðja það. Ég held hinsvegar með laxeldi á grundvelli þekkingar sem hægt er að afla hér heima og erlendis og þess mats sem er á hendi Hafrannsóknarstofnunar að leggja fyrir stjórnvöld. Allir ættu að ræða málin á þeim grunni.“

smari@bb.is

DEILA