Enn er boðað vatnsleysi

Bæjarbúar á Ísafirði eru orðnir langþreyttir á ítrekuðu vatnsleysi í sumar og í gær þegar það virðist hafa verið vatnslaust í 5 –  6 klukkutíma var mörgum nóg boðið. „Hér er ekki hægt að sinna gestum og bjóða upp á mat“ sagði afar ósáttur veitingamaður í gær. Ísafjarðarbær hafði auglýst vatnsleysi frá kl. 15:00 og í hámark 2 klukkustundir en kl. 18:00 voru veitingahús ennþá vatnslaus.

Nú er á facebook síðu bæjarins þessi tilkynning

Vegna viðgerða þarf að taka vatn af efri bænum á Ísafirði og öllum Hnífsdal klukkan 22 í kvöld og fram á nótt. Nokkur hús munu sleppa við vatnstruflanir, en almennt mun verða vatnslaust á Engjavegi, Seljalandsvegi, Hjallavegi, Hlíðarvegi, Urðarvegi, Miðtúni, Sætúni, Stakkanesi og í öllum götum í Hnífsdal. Þá verða vatnstruflanir á Hlíf, Sólborg, Menntaskólanum, Orkubúinu og í íþróttahúsinu á Torfnesi.

Í gær varð óvænt vatnsleysi víða á Eyrinni á Ísafirði í á aðra klukkustund. Hreinn og klár misskilningur olli því óþarfa vatnsleysi og er beðist velvirðingar á þessum mistökum.
Tíðar vatnstruflanir í sumar eru eðlilega farnar að hafa áhrif á skap íbúa, en nú hlýtur að fara að sjá fyrir endann á þeim. Í sumum tilfellum hafa þær verið óhjákvæmilegar, en ofan á hefur bæst alls konar óheppni og í einhverjum tilfellum klaufaskapur sem hefur bætt gráu ofan á svart.

 Marzellíus Sveinbjörnsson bæjarfulltrúi slær á létta strengi á facebook síðu sinni og eggjar bæjaryfirvöld til að teikna upp allar lagnir og skrá hnit á brunnum, svo ekki þurfi að slá upp miðilsfundi í hvert sinn sem lagnir bila og bera við misskilningi og óheppni þegar íbúar fá ekki vatn.

bryndis@bb.is

DEILA